Þrír ungir tónlistarmenn, píanóleikarinn Erna Vala Arnardóttir, sellóleikarinn Hjörtur Páll Eggertsson og fiðluleikarinn Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, blása til tónleika í Norðurljósum í lok sumars þar sem ýmsir kimar rómantíkurinnar verða kannaðir. Flutt verður einleikssónata fyrir selló eftir Hans Abrahamsen frá Danmörku, fiðlusónata í e-moll eftir Englendinginn Edward Elgar og að lokum píanótríó nr. 1 eftir hinn þýska Johannes Brahms.
Erna Vala Arnardóttir píanóleikari, fædd 1995, hefur komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum síðustu ár og unnið til fjölda verðlauna fyrir píanóleik sinn. Þar má helst nefna heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands árið 2018 og fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA-píanókeppninnar á Íslandi. Erna Vala hefur leikið einleik með bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Hún hefur einnig komið fram sem gestalistamaður ýmissa hátíða, til dæmis Arctic Initiative í Washington D.C., Albignac Piano Festival í Frakklandi og Trinity Laban-samtímalistahátíðarinnar í London.
Erna Vala stofnaði menningarfélagið Íslenska Schumannfélagið sumarið 2020 og starfar sem formaður þess. Félagið stefnir að því að stuðla að heilbrigðu og fjölbreyttu menningarlífi á Íslandi, kynna störf og tónlist Schumann-hjónanna og þeirra tengiliða, og skipuleggja áhugaverða viðburði og störf á Íslandi. Í ágúst mun félagið halda tónlistarhátíðina Seiglu í Hörpu, Sigurjónssafni og Hannesarholti. Erna Vala er listrænn stjórnandi hátíðarinnar.
Erna Vala hefur lokið meistaragráðu í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki hjá Hömsu Juris. Hún vinnur nú að doktorsnámi sínu við USC Thornton School of Music í Kaliforníu sem Fulbright-nemi undir handleiðslu Bernadene Blaha. Áður lauk hún bakkalárgráðu í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté. Hún hefur hlotið góða styrki til náms; Rótarýstyrk árið 2021, minningarstyrk um Birgi Einarsson 2020 og 2017, minningarstyrk um Jón Stefánsson 2019, minningarstyrk um Halldór Hansen 2018 og námsstyrk Landsbankans árið 2017. Þá var hún ein verðlaunahafa Ungra einleikara árið 2014.
Hjörtur Páll Eggertsson var fimm ára þegar hann byrjaði að leika á selló. Fyrsti kennari hans var Örnólfur Kristjánsson, en hann stundaði síðar frekara nám hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran, auk þess að hafa lært hjá Liv Opdal þegar hann dvaldi í Stavanger í eitt ár. Hjörtur hefur frá árinu 2012 tekið virkan þátt í ýmsum hátíðum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, auk þess að hafa leikið í masterklössum hjá Torleif Thedéen, László Fenyo, Marko Ylönen og Chu Yi-Bing auk annarra. Hjörtur er einnig virkur í flutningi kammertónlistar og hlaut meðal annars Nótuna árið 2014 ásamt strengjakvartetti sínum og hefur síðan þá komið fram á ýmsum kammertónlistarhátíðum í Evrópu. Auk þess er hann meðlimur Kammersveitarinnar Elju og Det Danske Ungdomsensemble ásamt því að hafa leikið sem aukamaður með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Copenhagen Phil. Í mars 2017 lék hann einleik með Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík. Ári síðar var honum boðið að halda tónleika á North Norfolk Music Festival í Englandi. Í upphafi ársins 2019 lék hann einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem einn af fjórum sigurvegurum Ungra einleikara það árið. Eftir að Hjörtur lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2017 hélt hann til Kaupmannahafnar í framhaldsnám við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium þar sem hann stundar nú mastersnám undir handleiðslu prof. Morten Zeuthen og Toke Møldrup. Auk sellóleiks hefur Hjörtur lagt stund á hljómsveitarstjórn og hefur frá haustinu 2020, samhliða sellónáminu, stundað stjórnendanám við Malko-akademíuna í samstarfi við Dönsku útvarpshljómsveitina. Í gegnum Malko-akademíuna hefur hann meðal annars hlotið tækifæri til þess að stjórna fyrir Herbert Blomstedt. Hjörtur leikur á selló smíðað fyrir hann af Hans Jóhannssyni árið 2016.
Sólveig Vaka Eyþórsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1994 og hóf fiðlunám átta ára gömul hjá Önnu Rún Atladóttur. Í framhaldi lærði hún hjá Ara Þór Vilhjálmssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Guðnýju Guðmundsdóttur í Listaháskóla Íslands.
Sólveig Vaka lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 2014 og söng frá upphafi náms síns þar með Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Einnig hefur hún spilað mað tónlistarmanninum Ólafi Arnalds frá árinu 2015, bæði í upptökum sem og á tónleikum víðsvegar um heiminn. Sólveig VAka og faðir henniar, Eyþór Árnason, hlutu styrk úr tónlistarsjóði Rannís til að fara í ferðalag um Ísland sumarið 2017, með viðburð þar sem hún spilaði þrjú einleiksverk á fiðlu og hann las upp úr ljóðabókum sínum. Hún hefur unnið mikið með ungum tónskáldum, og fyrir fyrrnefndan viðburðpantaði hún verk af Friðriki Margrétar-Guðmundssyni, sem var þar af leiðandi flutt á ellefu tónleikum víðsvegar um landið. Í október 2019 var Sólveig Vaka ein fjögurra sem báru sigur úr býtum í einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskóla Íslands, og lék í kjölfarið fyrsta fiðlukonsert Max Bruch með hljómsveitnni í janúar 2020. Sólveig Vaka hefur sótt tíma hjá ýmsum fiðluleikurum síðasta ár, má þar helst nefna Tönju Becker-Bender, Leon Spierer, Ingolf Turban og Elfu Rún Kristinsdóttur. Sólveig Vaka býr nú í Þýskalandi þar sem hún stundar mastersnám við Tónlistarháskólann í Leipzig undir handleiðslu Erichs Höbarth. Sólveig Vaka leikur á fiðlu sem Hans Jóhannsson smíðaði fyrir hana árið 2010 í Reykjvaík.
Tónleikarnir eru styrktir af Ýli tónlistarsjóði og tónlistarsjóði Rannís.
Nemendum býðst miðinn á 2.500 kr. í miðasölu Hörpu