Tix.is

Um viðburðinn

Úr myrkrinu / from darkness 

Umbra Ensemble flytur nýja og forna tónlist í eigin útsetningum í Hannesarholti 26.júlí kl.20.

Umbra leiðir áheyrendur inn í dulúð fornrar tónlistar frá ýmsum löndum, Íslandi, Finnlandi, Englandi, Þýskalandi, Spáni og Katalóníu. Draugar, vosbúð, kuldi og myrkur hefur verið vinsælt yrkisefni íslenskra þjóðlaga en það er e.t.v í stíl við þjóðarsálina og dvöl á einangraðri eyju. Myrkrið í evrópskri miðaldatónlist birtist fremur í ofuráherslu á mannlega þjáningu, syndina og breyskleika mannsins. Í allri þessari tónlist er samt heillandi fegurð og frumleiki sem á erindi við nútímann. Allar útsetningar á tónleikunum eru eftir Umbru.

Umbra Ensemble var stofnað haustið 2014 og er skipað fjórum atvinnutónlistarkonum; Alexöndru Kjeld, Arngerði Maríu Árnadóttur, Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur og Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Hópurinn hefur frá upphafi unnið að því að skapa öðruvísi stemningu á tónleikum, ná til ólíkra áhorfenda og kanna ný rými. Hvað tónlistarflutninginn sjálfan varðar er áhersla lögð á skapa eigin útsetningar á fornu tónefni og vinna markvisst með þann hljóðheim sem hlýst af samsetningu upprunahljóðfæra og samsöngs. Þær hafa skapað sinn eigin hljóðheim sem hefur fornan blæ og spila þær bæði nýja og gamla tónlist í eigin útsetningum.

Hannesarholt býður uppá kvölverð öll fimmtudagskvöld, föstudagskvöld og laugardagskvöld í sumar og geta gestir notið matar og lifandi tónlistar á undan tónleikum Umbru. Borðapanir á Hannesarholt@hannesarholt.is og í síma 511-1904.