Tix.is

Um viðburðinn

Gunni og Felix í 25 ár!

Félagarnir Gunnar Helgason og Felix Bergsson urðu eftirlæti íslenskra barna þegar þeir komu fram á sjónarsviðið í Stundinni okkar veturinn 1994-1995 sem tvíeykið Gunni og Felix. Bæði voru efnistökin nýstárleg og eins var óvenjulegt að sjá unga og hressa stráka gefa sig að því að semja og flytja efni fyrir börn í Sjónvarpinu. Í kjölfarið hafa þeir félagar haldið ótrauðir áfram í 25 ár, skemmt út um allar koppagrundir og gefið út ógrynnin öll af tónlist og leiknu efni sem hefur ratað inn í bíla og barnaherbergi á Íslandi. Þeir hafa sett upp leikrit, sent frá sér bækur, sjónvarpsefni og kvikmyndir.

Í tilefni af 25 ára samstarfsafmæli Gunna og Felix blása þeir til fjöskyldufagnaðar í Háskólabíói ásamt góðum vinum. Auk þeirra Gunna og Felix koma fram:

Salka Sól
Sigyn Blöndal
Jón Jónsson
Friðrik Dór
Stjörnurnar úr Mömmu klikk
Krakkar frá Dansskóla Birnu Björns  

Yfirskrift tónleikanna er Ein stór fjölskylda og vísar til þess að Gunni og Felix hafa alltaf stefnt að því að skemmta allri fjölskyldunni því það er langskemmtilegast að skemmta sér og læra þegar allir eru saman.

Ein stór fjölskylda – Gunni og Felix í 25 ár! verður í Háskólabíói þann 30. janúar 2022 kl. 13:00 og 16:00.