Á þessum tónleikum koma fram Hoym, Curro Rodríguez og Skurðgoð.
Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík, Rás 2 og Landsbankann, stendur fyrir Upprásinni, tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Upprásin fer nú fram þriðja árið í röð og munu samtals 27 hljómsveitir koma fram, þrjár á hverju tónleikakvöldi.
Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka við fjölbreytni. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.
Miðaverð er aðeins 2000 kr. en hægt er að leggja til hærri upphæð í miðasöluferlinu sem rennur beint til listafólksins.
Hoym skipa þær Katrín Helga
Ólafsdóttir, Lea Kampmann og Elinborg Pálsdóttir sem munu á þessum
tónleikum flytja lög af plötu sinni Lög frá Farbraut sem út kom sumarið
2025. Platan hefur að geyma sex lög sem eru flutt á færeysku og íslensku og var
hljóðrituð á Íslandi í janúar 2025. Lögin voru hljóðrituð í lifandi flutningi tríósins, með
snarkandi arineld í bakgrunni. Viðfangsefni og stef sem könnuð eru á plötunni
hverfast um að það að tilheyra og hvernig sambönd og tilfinningar geta brúað
menningarheima, tungumál og landslag. Katrín, Lea og Elínborg kynntust þegar þær stunduðu nám við Rytmíska
tónlistarskólann í Kaupmannahöfn en samhliða starfi tríósins hafa þær allar sent
frá sér plötur sem sólólistakonur.
Curro Rodriguez nálgast flamenco-hefðina á frjóan hátt,
þenur út mörk og mæri dansins og tónlistarinnar. Röddin við það að bresta,
líkaminn verður miðill fyrir eitthvað fornt og villt, flamencodansinn verður að
helgigjörð og hreinunsarathöfn. Curro magnar upp ástand, tilraunakennt, hrátt
og fullt af lífi.
Skurðgoð er black metal hljómsveit sem spilar frumsamin lög með áherslu á hraða, ómstríðu, laglínu og frumöskur svo til verður tónlist sem á engan sinn líka á landinu. Skurðgoð er sigurhljómsveit Músíktilrauna 2024, en þá lék sveitin undir nafninu Vampíra og var fyrsta svartmálms hljómsveitin til að bera sigur úr býtum í keppninni. Sveitin hefur spilað víða, svo sem í Pan-Arctic Vision í Grænlandi, á tónlistarhátíðinni Hellirinn Metalfest og á Rokkhátíð á Lemmy. Skurðgoð skipa Heiðar Þórarinn Jóhannsson, Þórsteinn Leó Gunnarsson, Arnar Már Víðisson og Sindri Þór Atlason.