1.-5. september sýnir þýski listamaðurinn Daniel Rode verk sín í suðausturhluta framhúss Hörpu. Mánudaginn 1. september verður stórt textaverk „ICANNOT“ skapað og sett upp í rýminu og verður það svo til sýnis til föstudagsins 5. september.
Daniel Rode dvaldi í Nesi, listamiðstöð á Skagaströnd, fyrr á þessu ári og sérstakt ánægjuefni að hann skuli nú snúa aftur til að vinna þetta verk í Hörpu.
Áhugasömum gefst tækifæri til að hitta listamanninn í sýningarrýminu í Hörpu, 1.-5. september milli kl. 17 og 19.
Aðgangur að sýningunni er ókeypis og allir velkomnir!
Daniel Rode um verk sín:
„Ég er konseptlistamaður og vinn aðallega með teikningar og innsetningar. Ég einbeiti mér að verkum í almannarými og nota þá stutta texta, stundum bara textabrot. Ég reyni að trufla hraðan lestur með því að hunsa grunnreglur, t.d. um orðabil og línuskiptingar og sleppa greinarmerkjum. Þannig birtast stafirnir einungis sem mynd, áður en hægt er að lesa orðin og skilja textann. Og jafnvel þá eru listaverkin óræð, því textarnir hafa oft enga beina merkingu á staðnum. Skilin milli áhorfanda og verks eru því enn til staðar og verkið er í senn torrætt og skiljanlegt.“
Daniel Rode fæddist árið 1971 í Eutin í Norður-Þýskalandi og stundaði nám í Greifswald og Dresden. Sýningar og verkefni hafa leitt hann til Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Kóreu, Barein, Víetnam, Bandaríkjanna, Kanada og margra Evrópulanda. Á árunum 2009 til 2014 bjó Rodeí Kaíró í Egyptalandi en hann býr ú og starfar í Dresden og Berlín.
Nánari uppýsingar um listamanninn, ferilskrá, lista yfir sýningar, verkefni og útgáfur sem og núverandi listaverk, má finna á vef listamannsins www.danielrode.de