Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík, Rás 2 og Landsbankann, stendur fyrir Upprásinni, tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Upprásin fer nú fram þriðja árið í röð og munu samtals 27 hljómsveitir koma fram, þrjár á hverju tónleikakvöldi.
Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka við fjölbreytni. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.
Miðaverð er aðeins 2000 kr. en hægt er að leggja til hærri upphæð í miðasöluferlinu sem rennur beint til listafólksins.
Néfur
Í hljóðheimi Néfur fléttast rödd og líkami listakonunnar saman við vettvangsupptökur af umhverfi sem er í hættu. Í list sinni vinnur Néfur með umhverfisvitund, skynræna tenging við náttúruna og kynferðislega valdeflingu. Néfur hefur samið fyrir ólíka miðla svo sem leikhús, kvikmyndir og tónleikasalinn og hefur komið fram með tónlistarfólki víðs vegar um Evrópu. Um þessar mundir er hún að senda frá sér nýja plötu sem hefur að geyma hljóðritanir af jökli og rödd. The Water, The Lover er goðsögulegt ferðalag um holdgervingu, djúpar tilfinningar og erótískan kraft náttúrunnar og manneskjunnar.
Laglegt
Laglegt er listamannanafn Sigríðar Langdal. Laglegt tók að vekja athygli þegar hún deildi hráum upptökum (voice memo) af lögum sem hún hafði verið að semja á Soundcloud. Yrkisefni textanna sækir Laglegt í
tilfinningar svo sem ástarsorg og samfélagslegar hindranir. Sorgartextana setur hún svo við líflegar laglínur og stígur á stokk með gítar í hendi.
Straff
Straff er glænýtt sólóverkefni frá Björgúlfi Jes sem er söngvari og lagasmiður í íslensku rokksveitinni Spacestation. Straff var stofnað í janúar 2024 og fyrsta lagið, „Alltof mikið, stundum “ kom út í lok apríl 2025. Tónlistinni má lýsa sem elektrónísku syntha-rokki með mjög pönkuðu ívafi. Lögð er mikil áhersla á skrýtna trommuheila- og synthasúpur sem fléttast saman og eru drifin áfram af einföldum og taktföstum kraut- trommutakti og grípandi bassalínum.