„Er þetta hvalur sem svamlar hjá eða marglytta? Eða er þetta kannski hafmeyja?“
Í skuggaleikhússmiðju ÞYKJÓ skapa fjölskyldur skuggabrúður innblásnar af dýrum sem synda í sjónum umhverfis Hörpu. Fjölskyldur koma ímyndunaraflinu á flug og kynnast töfrum skuggaleikhúss.
Smiðjan sem fer fram í Norðurbryggju og Rímu á 1. hæð er ætluð börnum frá 4 ára aldri í fylgd fullorðinna. Allur efniviður verður á staðnum og þátttaka er ókeypis.
ÞYKJÓ er þverfaglegt teymi hönnuða sem vinna fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði upplifunarhönnunar, innsetninga og vöruhönnunar. Hönnunarstarf þeirra miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í samstarfi við mennta- og menningarstofnanir.
ÞYKJÓ hlaut Hönnunarverðlauna Íslands árið 2024 fyrir verkefnið Börnin að borðinu. Hópurinn hlaut tilnefningu til sömu verðlauna í tvígang, árið 2021 og 2022 auk tilnefningar til alþjóðlegu YAM verðlaunanna. Á Hönnunarmars 2025 kom út Saga um Þykjó, bók sem dregur upp litríka mósaíkmynd af hönnunarferli og hugmyndafræði ÞYKJÓ hönnunarteymisins. Þykjó á veg og vanda að hönnun upplifunarrýmisins Hljóðhimna sem voru opnaðir á tíu ára afmæli Hörpu, 2021.