Mögnuð tónleikaupplifun í myrkri – Autechre á Íslandi
Raftónlistardúettinn Autechre stígur á svið í Silfurbergi, Hörpu þann 15. ágúst næstkomandi. Um er að ræða einstaka tónleikaupplifun þar sem myrkrið ræður ríkjum.
Bresku tónlistarmennirnir Sean Booth og Rob Brown hafa undir merkjum Autechre verið leiðandi afl í framúrstefnulegri raftónlist í áratugi. Þeir eru meðal áhrifamestu en jafnframt dularfyllstu nafna í raftónlistarsenunni í dag og hafa byggt upp sérstöðu með tilraunakenndum hljóðheimum, mögnuðum taktfléttum og ófyrirsjáanlegri tónlistarsköpun. Nú eru þeir á einni umfangsmestu tónleikaferð sinni til þessa og hafa þegar komið fram víða um heim þegar þeir snerta niður á Íslandi.
Það sem gerir tónleika þeirra einstaka er að þeir fara fram í myrkvuðum sal, þar sem tónlistin fær að stjórna rýminu og skynfærin eru tekin á nýjar slóðir. Þetta verða tónleikar sem áhorfendur munu skynja frekar en sjá – hrá, óútreiknanleg og öflug upplifun sem fer lengra en hefðbundin tónlistarviðburður.
Autechre eru að fylgja eftir nýjustu útgáfu sinni, AE_2022–, sem inniheldur upptökur frá tónleikum víða um heim á árunum 2022–2024. Í desember síðastliðnum tóku þeir yfir BBC 6 Music Artist in Residence með fjögurra þátta DJ-seríu, sem endurspeglar fjölbreytileika ferils þeirra.
sideproject er raftónlistar tríó frá Reykjavík, þekkt fyrir þunga taktsmíð, ríkulega og áferðarmikla hljóðhönnun með stílbrjótandi nálgun. sideproject koma úr neðanjarðarsenu Íslands og vöktu fljótlega athygli með EP-plötunni radio vatican árið 2021, sem hlaut verðlaunin Raftónlistarplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Árið 2024 fylgdu þeir henni eftir með breiðskífunni sourcepond, gefin út af hinu virta útgáfufyrirtæki SVBKVLT í Manchester. Auk eigin útgáfu hafa þeir unnið með listamönnum á borð við Lilu Tirando a Violeta og Sigrúnu, unnið að taktsmíðum fyrir Björk á plötunni Fossora (2022), og unnið endurhljóðblöndun af laginu hennar “Atopos.”
Með hverri útgáfu festa þeir sig í sessi sem eitt af áhugaverðustu og framsæknustu nöfnum íslenskrar raftónlistar.
Hekla er einstakur listamaður á theremin, því alræmda og dularfulla rafmagnshljóðfæri sem hefur ávallt verið hulið dularfullum leyndardómum. Hekla tilheyrir fámennum hópi tónlistarmanna sem hafa náð fullkominni leikni á þetta sérkennilega hljóðfæri. Með klassíska menntun að baki spannar tónlist Heklu afar fjölbreytt svið — frá léttum og fiðrandi fuglasöng til djúprar og öflugra tóna sem minna á jarðskorpuhreyfingar. Hljóðheimur hennar hefur vakið athygli í alþjóðlegu tónlistar samfélagi, þar á meðal hjá listamönnum á borð við PJ Harvey, sem hafa líkt stíl hennar við tónskáld á borð við Colleen, Julia Holter og Jóhann Jóhannsson heitinn.