Tix.is

Norræna Húsið

Um viðburðinn

Klassík í Vatnsmýrinni 11. apríl kl. 20 í Norræna húsinu 

Auður Gunnarsdóttir sópran og Anna Guðný Guðmundsdóttir flytja ljóðaflokkinn Sieben frühe Lieder eftir Alban Berg, sönglög eftir Kurt Weill og aríur úr einþáttungnum Trouble in Tahiti eftir Leonard Bernstein. Í sönglögum Bergs ræður tilfinningaþrungi æskunnar ríkjum en  Kurt Weill slær annan tón með á beinskeyttum sönglögum sem geta gengið nokkuð nærri áheyrendanum. Í tónlist Bernsteins kallast á við raunsæi og rómantík, gaman og alvara.

Auður Gunnarsdóttir stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarháskólann í Stuttgart. Hún var fastráðin við óperuna í Würzburg og söng auk þess sem gestur í óperuhúsunum í Mannheim, Heidelberg, Bielefeld og Hannover. Hún hefur haldið fjölda ljóðatónleika hér heima og erlendis, gefið út geisladiska með íslenskri og erlendri ljóðatónlist og komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við Íslensku óperuna hefur Auður farið með hlutverk Mimiar í La Bohéme, Pamínu og  2. Dömu í Töfraflautunni , Greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós, Santuzzu í Cavaleria Rusticana og Elle í Mannsröddinni eftir Poulenc en fyrir það hlutverk var Auður tilnefnd til Grímuverlaunanna sem söngkona ársins 2017.

Anna Guðný Guðmundsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann Reykjavík og Guildhall School of Music and Drama í London með sérstaka áherslu á kammertónlist og meðleik með söng. Hún hefur starfað á Íslandi í aldarfjórðung og komið fram sem einleikari meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún er í sérflokki meðal íslenskra tónlistarmanna bæði sem meðleikari söngvara og túlkandi einleiksverka, einkum verka tuttugustu aldar og frumflutnings nýrrar tónlistar. Hún hefur verið píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur um langt árabil, ferðast víða með sveitinni og leikið inn á geisladiska. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2004 sem flytjandi ársins og hefur verið píanóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan 2005.  

AALTO Bistro er opið til kl 21.30 á miðvikudagskvöldum.

Aðgangseyrir er kr. 2.500, 1.500 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja, ókeypis fyrir nemendur og gesti 20 ára og yngri. Fernir tónleikar í áskrift á kr. 7.500, eða kr. 4.500 fyrir eldri borgara og öryrkja. Miðasala á Tix.is og við innganginn. Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið.