Á þessum hugljúfu og heillandi tónleikum fléttast saman sígild sönglög frá ólíkum tímum og lög úr leikhúsi og kvikmyndum í túlkun Ragnheiðar Ingunnar Jóhannsdóttur, sópransöngkonu og Evu Þyri Hilmarsdóttur, píanóleikara.
Öll verkin á dagskránni
eiga það sammerkt að hverfast um drauma og þrár. Á tónleikunum verða flutt þrjú
verk sem samin voru fyrr á árinu að beiðni Ragnheiðar og Evu Þyri af þeim Maríu
Huld Markan Sigfúsdóttur, Jóhanni G. Jóhannssyni og Sigurði Sævarssyni. Eldri
íslensk einsöngslög fá að sjálfsögðu líka sinn sess, meðal annars verða flutt
lög eftir Sigvalda og Selmu Kaldalóns, Jórunni Viðar og Sigfús Einarsson, auk
sönglaga eftir tónskáld á borð við Grieg, Sibelius, Rachmaninov og Schubert. Þá
leikur Eva Þyri tvö einleiksverk fyrir píanó; Träumerei eftir Robert Schumann
og Liebestraum eftir Franz Liszt. Þær Ragnheiður Ingunn og Eva Þyri fagna 10
ára samstarfsafmæli um þessar mundir, en leiðir þeirra lágu fyrst saman árið
2015 í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem Ragnheiður var þá nemandi en Eva
Þyri meðleikari. Samstarfið færðist yfir í Listaháskóla Íslands, en allar götur
síðan hafa þær verið með eitthvað spennandi á prjónunum og flutt heilmikið af
metnaðarfullri tónlist fyrir sópran og píanó. Þær hafa m.a. komið fram sem dúó
á Sumartónleikum í Sigurjónssafni, Tónlistarnæringu í Garðabæ, Óperudögum, Á
ljúfum nótum í Fríkirkjunni og nú síðast í Salnum í Kópavogi í tónleikaröðinni
Tíbrá.