EFNISSKRÁ Franz Josep
Haydn Sinfónía nr. 96 í D-dúr (Kraftaverkið) Golfam Khayam I am not a tale to
be told Gustav Mahler Sinfónía nr. 4 í G-dúr, Himnasælusinfónían HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Barbara Hannigan EINSÖNGVARI Barbara Hannigan Sinfóníuhljómsveit Íslands og
Kanadíska sópransöngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan eru
væntanleg til Akureyrar og halda tónleika í Hofi föstudaginn 16. júní. Aðeins
er ár síðan Barbara kom fyrst til landsins og sló eftirminnilega í gegn með
hljómsveitinni í Hörpu á Listahátíð í Reykjavík vorið 2022. Gagnrýnandi
Fréttablaðsins sagði meðal annars um þá tónleika: „Túlkunin var draumkennd og
skáldleg, það ver einhver upphafin stemning yfir öllu saman,“ og „útkoman var
sjaldheyrður unaður“. Barbara Hannigan hefur vakið feikilega aðdáun um heim
allan undanfarin ár, fyrir stórfenglegan söng en ekki síður fyrir hæfileika
sína sem hljómsveitarstjóri. Hún hefur starfað með öllum helstu hljómsveitum
heims og hefur frumflutt yfir 85 ný tónverk, meðal annars eftir György Ligeti
og Hans Abrahamsen. Þá hefur hún sungið í helstu óperuhúsum heims, meðal annars
hið krefjandi titilhlutverk í Lulu eftir Alban Berg. Barbara Hannigan hefur
hlotið ótal verðlaun fyrir list sína, meðal annars Grammy-verðlaun fyrir
plötuna Crazy Girl Crazy árið 2018 og hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið
2020. Þegar Rolf Schock-verðlaunin féllu henni í skaut rökstuddi dómnefndin
ákvörðun sína með þeim orðum að Hannigan væri „einstakur og framsækinn
flytjandi sem nálgast tónlistina sem hún flytur með öflugum og lifandi hætti“.
Á efnisskrá tónleikanna í júní verða þrjú hrífandi tónverk þar sem ljóðræna og
leikgleði Barböru Hannigan fá að njóta sín jafnt í söng og hljómsveitarstjórn.
Tvö verkanna teljast til öndvegisverka tónbókmenntanna, það eru hin svonefnda
Kraftaverkasinfónía Josephs Haydn nr. 96 og fjórða sinfónía Gustavs Mahler, hin
svokallaða Himnasælusinfónía, þar sem Barbara fer með sópranhlutverkið auk þess
að stjórna hljómsveitinni. Á undan sinfóníu Mahlers hljómar nýtt og spennandi
verk íranska tónskáldsins Golfam Khayam, en hún nýtur mikillar velgengni fyrir
tónsmíðar sínar. Leiðir þeirra Barböru Hannigan lágu saman eftir þátttöku
Hannigan í samstöðutónleikum með konum í Íran og er þessi stutta og spunakennda
tónhugleiðing samin með hana í huga. Sinfónía Haydns er ein af hinum
snilldarlegu Lundúnasinfóníum hans þar sem kímnigáfa hans og fullkomið vald á
forminu njóta sín til fulls. Himnasælusinfónía Mahlers er sömuleiðis í
sérflokki meðal höfundarverka hans – klassísk í formi og aðgengileg en full af
barnslegri einlægni, ást á náttúrunni og tilfinningu fyrir hinu
yfirskilvitlega.
Tónleikakynning á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tónlistarfélags Akureyrar fer fram í Hamragili kl. 18. Þar mun Michael Jón Clarke gefa tónleikagestum innsýn í efnisskrá kvöldsins. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.