Tix Miðasala ehf. ("Tix") rekur miðasölukerfi fyrir sölu og umsýslu aðgöngumiða á ýmis konar viðburði og vörur þeim tengdum (hér eftir einnig nefnt "Tix" eða "kerfið"). Viðskiptavinir Tix, s.s. viðburðahaldarar, skipuleggjendur eða viðburða-, tónlistar-, eða leikhús (hér eftir sameiginlega nefndir "viðburðahaldarar") nota kerfið til að selja aðgöngumiða og tengdar vörur.
Í tengslum við notkun á miðasölukerfinu á sér stað vinnsla persónuupplýsinga, þ.m.t. um kaupendur aðgöngumiða og tengdra vara sem nota kerfið. Í tengslum við slíka vinnslu persónuupplýsinga koma viðburðahaldarar fram sem svokallaðir ábyrgðaraðilar í skilningi persónuverndarlaga, þ.e. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, en Tix sem svokallaður vinnsluaðili. Sem vinnsluaðili vinnur Tix persónuupplýsingar kaupenda samkvæmt fyrirmælum viðburðarhaldara og hafa aðilar gert með sér sérstakan vinnslusamning sem gildir um þá vinnslu. Kaupendur eru hvattir til þess að kynna sér persónuverndarstefnu viðburðarhaldara þar sem kveðið er á um þá vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað í tengslum við notkun á Tix miðasölukerfinu.
Í persónuverndarstefnu þessari er kveðið á um þá vinnslu persónuupplýsinga sem Tix telst ábyrgðaraðili að. Vakni spurningar í tengslum við stefnu þessa eru einstaklingar hvattir til þess að setja sig í samband við Tix, sbr. grein 6 í stefnu þessari.
2.1 Aðgangur á Tix
Á vefsíðu Tix geta notendur stofnað aðgang þar sem hægt er að halda utan um allar pantanir sem gerðar eru í gegnum vefsíðuna. Velji notendur að stofna slíkan aðgang vinnur Tix með upplýsingar um nafn, netfang og farsímanúmer, auk kennitölu, heimilisfangs og lands velji notendur að skrá slíkar upplýsingar. Þá vinnur Tix með upplýsingar um notendanafn og lykilorð notenda, ásamt upplýsingum um kaupsögu, þ.e. á hvaða viðburði notandi hefur keypt aðgang að eða hvaða vörur notandi hefur keypt (bókunarnúmer, heiti viðburðar og dagsetning ásamt afrit af kvittun). Tilgangurinn með vinnslunni er að veita notanda yfirlit yfir allar pantanir á einum stað og byggir vinnslan á samningi aðila.
Tix vinnur með upplýsingar er tengjast aðgangi notanda á meðan notandi hefur virkan aðgang. Ákveði notandi að eyða aðgangi sínum eyðir Tix öllum þeim upplýsingum sem tengjast viðkomandi aðgangi. Til áréttingar skal tekið fram að slík eyðing hefur þó ekki áhrif á þær persónuupplýsingar sem Tix vinnur sem vinnsluaðili fyrir hönd viðburðarhaldara, sbr. grein 1 í stefnu þessari.
2.2. Póstlisti Tix
Velji notandi að skrá sig á póstlista Tix vinnur Tix með upplýsingar um nafn og netfang viðkomandi. Vinnslan byggir á samþykki og getur notandi hvenær sem er afskráð sig af póstlista Tix, þ.m.t. með því að smella á afskráningartengil í tölvupóstum sem berast frá Tix.
2.3. Vefkökur á vefsíðu tix.is
Vefsíða Tix, tix.is , nýtir ýmsar vefkökur. Nánari tilgreiningu á þeim má finna í vefkökuborða sem aðgengilegur er á heimasíðunni. Notkun á vefkökunum byggir á samþykki notanda, ef frá eru taldar nauðsynlegar vefkökur.
2.4. Forsvarsmenn viðskiptavina
Í þeim tilgangi að geta átt í samskiptum við viðburðarhaldara, sem í flestum tilvikum eru lögaðilar, vinnur Tix með samskipta- og tengiliðaupplýsingar forsvarsmanna viðskiptavina sinna. Þannig er unnið með upplýsingar um nafn, netfang, símanúmer og stöðu viðkomandi aðila. Í þeim tilvikum er viðburðarhaldarar eru einstaklingar er einnig unnið með kennitölu og heimilisfang þeirra. Í tengslum við samskipti aðila verður til samskiptasaga sem einnig er unnið með af hálfu Tix í þeim tilgangi að geta átt í samskiptum við viðskiptavini. Vinnsla upplýsinga um forsvarsmenn viðburðarhaldara sem eru lögaðilar byggir á lögmætum hagsmunum en í þeim tilvikum er viðburðarhaldarar eru einstaklingar byggir vinnslan á samningi aðila.
2.5. Umsækjendur um störf
Í tengslum við umsóknir einstaklinga um störf hjá Tix vinnur félagið með afrit af umsókn viðkomandi. Þær upplýsingar sem einkum er unnið með í tengslum við slíkar umsóknir eru samskipta- og tengiliðaupplýsingar, upplýsingar um starfsreynslu og menntun, afrit af kynningarbréfi ef við á og aðrar upplýsingar sem umsækjendur velja að koma á framfæri. Bendi umsækjendur á meðmælendur er einnig unnið með slíkar upplýsingar og eftir atvikum aðrar upplýsingar sem eru opinberar, s.s. á samfélagsmiðlum. Þessi vinnsla persónuupplýsinga um umsækjendur um störf byggir á beiðni þeirra um að gera samning við Tix.
Tix varðveitir persónuupplýsingar er tengjast umsóknum í eitt ár frá því að umsókn berst. Sé um auglýst starf að ræða varðveitir Tix umsóknir í sex mánuði eftir að umsóknarferli lýkur nema umsækjandi hafi sérstaklega samþykkt lengri varðveislutíma.
2.6. Önnur samskipti
Setji einstaklingur sig í samband við Tix, s.s. í gegnum samfélagsmiðla, af hvaða ástæðu sem er vinnur Tix með tengiliðaupplýsingar viðkomandi og þær upplýsingar sem viðkomandi hefur komið á framfæri. Slík vinnsla byggir fyrst og fremst á lögmætum hagsmunum Tix að geta tekið á móti og svarað hvers konar fyrirspurnum og afgreitt beiðnir sem félaginu berast.
Þeir einstaklingar sem Tix vinnur persónuupplýsingar um eiga rétt á að fá upplýsingar um það hvaða persónuupplýsingar unnið er með og hvernig vinnslunni er hagað. Þá kunna einstaklingarnir að eiga rétt á að fá afrit af upplýsingunum. Við ákveðnar aðstæður geta einstaklingar jafnframt óskað eftir því að Tix sendi afrit af upplýsingum sem viðkomandi aðili hefur látið Tix í té eða stafa frá viðkomandi með rafrænum hætti til þriðja aðila.
Ef einstaklingar vilja láta eyða þeim persónuupplýsingum sem Tix vinnur með sem ábyrgðaraðili kann slíkur réttur jafnframt að vera til staðar, s.s. þegar varðveisla upplýsinganna er ekki lengur nauðsynleg miðað við tilgang vinnslunnar eða í þeim tilvikum er einstaklingur afturkallar samþykki sitt og önnur heimild liggur ekki til grundvallar vinnslunni. Þá er jafnframt hægt að óska eftir því að vinnsla verði takmörkuð og í þeim tilvikum er vinnslan byggir á lögmætum hagsmunum Tix geta einstaklingar andmælt vinnslunni.
Ef vinnsla byggir á samþykki getur einstaklingur hvenær sem er afturkallað samþykkið, s.s. í tengslum við skráningu á póstlista Tix.
Framangreind réttindi eru þó ekki fortakslaus og þannig kunna lög að skylda félagið til að hafna ósk um eyðingu eða aðgang að gögnum. Þá getur Tix jafnframt þurft að hafna beiðni vegna betri réttar þriðja aðila. Ef upp koma aðstæður þar sem að Tix getur ekki orðið við beiðni mun félagið leitast við að útskýra hvers vegna beiðninni hefur verið hafnað.
Ef einstaklingur hefur athugasemdir við vinnslu Tix á persónuupplýsingum sínum eða hvernig félagið hefur svarað beiðni viðkomandi skal á það bent að hægt er að senda erindi til Persónuverndar. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu stofnunarinnar, personuvernd.is
Fái Tix beiðni er lýtur að vinnslu þar sem viðburðahaldarar koma fram sem ábyrgðaraðilar vinnslu, sbr. tilgreiningu í grein 1 í þessari stefnu, mun Tix benda einstaklingnum að leita til viðkomandi viðburðarhaldara.
Tix kann að nýta utanaðkomandi þriðju aðila í tengslum við upplýsingatækniþjónustu, s.s. hýsingu og tæknilega aðstoð. Í tengslum við slíka þjónustu kunna þriðju aðilar að vinna með persónuupplýsingar þær sem Tix ber ábyrgð á sem svokallaðir vinnsluaðilar. Tix ábyrgist að grípa til fullnægjandi ráðstafana til að tryggja örugga meðferð viðkomandi þriðju aðila á persónuupplýsingum.
Í tengslum við möguleg kaup og sölu á félaginu kann Tix að þurfa að miðla afmörkuðum persónuupplýsingum, s.s. til mögulegra fjárfesta. Það sama kann að eiga við í tengslum við notkun félagsins á utanaðkomandi ráðgjöfum, s.s. lögfræðilegum ráðgjöfum og endurskoðendum.
Að öðru leyti miðlar Tix ekki persónuupplýsingum þeim sem félagið vinnur með sem ábyrgðaraðili nema félaginu sé það lagalega skylt, s.s. til stjórnvalda eða dómstóla. Einnig kann persónuupplýsingum þínum að vera miðlað til þriðja aðila til að bregðast við löglegum aðgerðum eins og húsleitum, stefnum eða dómsúrskurði.
Tix mun ekki miðla persónuupplýsingum utan Evrópska efnahagssvæðisins nema slíkt sé heimilt á grundvelli viðeigandi persónuverndarlöggjafar, s.s. á grundvelli staðlaðra samningsskilmála, samþykkis eða auglýsingar Persónuverndar um ríki sem veita persónuupplýsingum fullnægjandi vernd.
Tix grípur til viðeigandi tæknilegra og skipulagslegra ráðstafana til að vernda persónuupplýsingar sem unnið er með. Þessum ráðstöfunum er ætlað að vernda persónuupplýsingar gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi, afritun, notkun eða miðlun þeirra.
Erindum og fyrirspurnum er varða persónuverndarstefnu þessa eða vinnslu Tix á persónuupplýsingum skal beina til félagsins. Hægt er að hafa samband í síma, í gegnum tölvupóst eða með því að senda bréf til félagsins. Samskiptaupplýsingar félagsins eru eftirfarandi:
Tix Miðasala ehf.
Hallgerðargötu 13, 105 Reykjavík
info@tix.is
s. 551-3800
Tix uppfærir þessa persónuverndarstefnu reglulega og er nýjasta útgáfan alltaf aðgengileg á tix.is
Persónuverndarstefna þessi tók gildi 21. janúar 2020 og var hún síðast uppfærð þann 27. júní 2023.