Raddbandið reynir að redda jólunum!
Glæsileg og grátbrosleg tónleikasýning með leikhúsívafi þar sem ofurkonurnar í Raddbandinu fara á kostum. Sýningin er byggð á sönnum atburðum úr lífi þriggja nútímamæðra. Söngdívurnar ætla að vera búnar að græja allt fyrir jólin í tæka tíð og ná fullkomnum tökum á jólahátíðinni og móðurhlutverkinu. Jólastemning, jólastress, töfrandi samhljómur og allskonar grín!
Þrjár raddirRaddbandið er söng- og sviðlistahópur skipaður Auði Finnbogadóttur, Rakel Björk Björnsdóttur og Viktoríu Sigurðardóttur. Í Þjóðleikhúskjallaranum þessi jólin fá nýir textar um jólastressið og fjölskyldulífið úr smiðju Raddbandsins að njóta sín í fallegum þríradda útsetningum við þekkt jazz- og jólalög. Einar Bjartur Egilsson mun leika listir sínar á píanóið.
Áhorfendur mega búast við kvöldstund þar sem tónlist, leikhús og dans renna saman. Meðal annarra verka hópsins er fjölskyldusöngleikurinn Hver vill vera prinsessa? í Tjarnarbíó sem hlotið hefur frábæra dóma. Farðu að ráðum ofurkvennanna og græjaðu jólin snemma í ár!