Leikararnir, vinirnir og Garparnir Hjalti Rúnar Jónsson, Kristinn Óli Haraldsson og Vilhjálmur B. Bragason blása til leikhústónleika í Þjóðleikhúskjallaranum fimmtudagskvöldið 01.05.25.
Þar ætla þeir að flytja frumsamin lög eftir sig og aðra, gantast og grínast, segja sögur, sýna látbragð og spunalistir úr leikhúsinu, auk þess sem þeir eru boðnir og búnir að framkvæma minniháttar lýtaaðgerðir á tónleikagestum, enda meðvitaðir um mikilvægi þess að líta vel út og koma sér upp hefndarlíkama fyrir sumarið.
Þeim til halds verður gítarsnillingurinn Daníel Andri Eggertsson og fleiri góðir og misleynilegir gestir. Færri komust að en vildu þegar þeir vinirnir héldu sambærilega tónleika á Akureyri og því um að gera að tryggja sér miða í tíma og mála bæinn eins rauðan og hægt er á degi verkalýðsins.