Leikkonan Kristín Þóra Haraldsdóttir stendur fyrir sýningunni Á rauðu ljósi. Á rauðu ljósi er einnar konu sýning sem er blanda af uppistandi, einleik og einlægni.
Kristín Þóra fer um víðan völl í verkinu en megináhersla er á stress, streitu, seiglu, aumingjaskap og dugnað.
Gamansýning um stressið sem fylgir því að vera manneskja. Stressaðu þig upp með Stínu í Þjóðleikhúskjallaranum.
Skrautlegur vinahópur heldur í sína árlegu útilegu þar sem allt þarf að vera á sínum stað - rétta stæðið fyrir hjólhýsin, moðsteikta holulambið, soundboxið og allt hitt. En nú er samt ekkert eins og það var, því það vantar eina í hópinn. Hver og einn er með sínar hugmyndir um það hvernig á að bregðast við nýrri stöðu og hin árlega samkoma vinahópsins tekur óvænta og stórvarasama stefnu!
Veit Hjálmar um öskuna? Fær Guðrún „closure“ á stóra málið? Mun viðhafnarnámið nýtast Andra á toppnum? Hvar gisti Svandís í nótt? Og er David Clark allur þar sem hann er séður?
Bráðfyndið nýtt verk, samið af mörgum fremstu gamanleikurum þjóðarinnar úr leikhópi Þjóðleikhússins, unnið upp úr missönnum sögum af útilegum á Íslandi þar sem allt fer í steik!
Hér er unnið með list leikarans og samband hans við áhorfendur af hugmyndaauðgi, fjöri og hæfilegu kæruleysi, um leið og þjóðarsálin er krufin. Óborganlegar aðstæður sem við þekkjum öll – alltof vel!
Sýning um þjóðaríþrótt okkar Íslendinga: Að elta veðrið!
Söngleikurinn Frost heillaði unga sem aldna upp úr skónum á síðasta leikári og ævintýrið heldur nú áfram á Stóra sviðinu af fullum krafti! Spennandi, fyndin og falleg saga, leikhústöfrar og mögnuð tónlist! Frost hlaut fjórar tilnefningar til Grímunnar, m.a. sem barnasýning ársins, og var tilnefnd sem sýning ársins á Sögum, verðlaunahátíð barnanna.
Söngleikurinn er byggður á hinni ástsælu Disneyteiknimynd Frozen og hefur notið mikilla vinsælda á Broadway, West End í London og víðar. Þetta hrífandi ævintýri birtist okkur hér í nýrri uppfærslu Gísla Arnar, þar sem einstakt vald hans á töfrum leikhússins nýtur sín til fulls. Sagan er innblásin af Snædrottningunni eftir sagnameistarann H.C. Andersen, og á þannig uppruna sinn á Norðurlöndum, en Gísli Örn setur sýninguna upp víða um Norðurlönd. Stórbrotin tónlistaratriði og bráðskemmtilegar persónur í nýjum söngleik þar sem þekkt og vinsæl lög hljóma í bland við fjölmörg ný lög sem eru samin sérstaklega fyrir söngleikinn.
Í samstarfi við Vesturport, Det Norske Teatret í Osló, Borgarleikhúsið í Stokkhólmi, Borgarleikhúsið í Helsinki og fleiri leikhús á Norðurlöndum. Sýnt með leyfi Disney Theatrical Productions.
Þýðing: Bragi Valdimar Skúlason Dans og sviðshreyfingar: Chantelle Carey Tónlistarstjórn: Andri Ólafsson, Birgir Þórisson Leikmynd: Börkur Jónsson Búningar: Christina Lovery Lýsing: Torkel Skjærven Hljóðhönnun: Þóroddur Ingvarsson, Brett Smith
Nemorino trúir ekki því sem hann les í bókum. Hann trúir hinsvegar því sem honum er sagt að standi í bókum. Hann kann nefnilega ekki að lesa. Adina er vön að fá athygli frá karlmönnum. Hvað gerir hún þegar einhver hættir að sýna henni athygli? Belcore vantar konu. Belcore vantar alltaf konu. Það væri fullkomin fjöður í hattinn fyrir svona flottan offisér. Dulcamara er búinn að flytja sömu söluræðuna mörghundruð sinnum. Hann veit alveg að „töfralyfin“ hans virka ekki. En hvað ef þau gera það?
Sviðslistahópurinn Óður Sviðslistahópurinn Óður neitar að geyma óperur í glerkössum. Þau vilja miklu frekar taka þær upp, hrista af þeim rykið og leika sér að þeim, pota í óskrifaðar reglur og skemmta sér og öðrum. Þau trúa á nálægð við áhorfendur og einlæga túlkun á tungumáli sem áhorfendur skilja.
Orð gegn orði (Prima Facie) sló í gegn með eftirminnilegum hætti á síðasta leikári og var verkið sýnt yfir 50 sinnum fyrir fullu húsi, fyrst í Kassanum og svo á Stóra sviðinu. Viðbrögð við sýningunni voru með eindæmum sterk og ákafar umræður sköpuðust um efni hennar í samfélaginu, enda erindi verksins afar brýnt. Ebba Katrín Finnsdóttir var tilnefnd til Grímunnar fyrir leik sinn í þessum magnaða verðlaunaeinleik.
Tessa er ungur og metnaðarfullur lögmaður, hámenntuð og eitursnjöll, sem hefur tekist að klífa hratt upp metorðastigann. Hún vinnur hvert málið á fætur öðru, með framúrskarandi þekkingu sinni á lagabókstafnum, ver sakborninga af fimi og prófar vitni með úthugsuðum spurningum. Skyndilega verður ófyrirsjáanlegur atburður í einkalífi hennar til þess að allt sem virtist svo borðleggjandi sýnist ekki eins einfalt og skýrt og áður, og hún neyðist til að taka hugmyndir sínar og viðhorf til gagngerrar endurskoðunar.
Orð gegn orði (Prima Facie) er margverðlaunað, nýtt verk sem sló í gegn á West End og Broadway, eftir að hafa unnið til leikritunarverðlauna ástralska rithöfundasambandsins. Verkið hlaut Olivier-verðlaunin árið 2023, auk þess sem sýningin hlaut fjölda tilnefninga til Olivier-verðlaunanna og Tony-verðlaunanna.
Leikari: Ebba Katrín Finnsdóttir. eftir Suzie Miller Leikstjórn Þóra Karítas Árnadóttir Þýðing: Ragnar Jónasson Leikmynd og búningar: Finnur Arnar Arnarson Tónlist: Gugusar Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir Hljóðhönnun: Kristján Sigmundur Einarsson
Sýning sem rúllar yfir alla þröskulda Stúlka ákveður að taka þátt í skólahlaupinu. Hún hleypur af stað. Hún er ein af sætu og vinsælu stelpunum og ætlar að verða leikkona þegar hún verður stór. Hún byrjar að dragast aftur úr. Stúlkan blæs sápukúlur og speglar sig í þeim. Bilið stækkar á milli hennar og hópsins. Sápukúlurnar svífa upp í himininn og brot úr lífshlaupi hennar birtast.
Heillandi verk um baráttu og sigra, byggt á persónulegri reynslu Sögupersónan leiðir okkur í gegnum líf sitt sem manneskja með líkamlega skerðingu sem ágerist með aldrinum. Í fallegu, hvetjandi og áhrifamiklu verki, þar sem tónlist, myndlist og dansi er fléttað saman við frásögnina, fylgjumst við með baráttu fyrir framtíð, sjálfstæði og réttindum, og leit að ást og tengslum. Taktu flugið, beibí er einstök saga sem á erindi við okkur öll, saga um framtíðardrauma, ástina, fjölskylduna, baráttu og sigra. Leikritið er byggt á persónulegri reynslu og lífshlaupi höfundarins, Kolbrúnar Daggar, sem tekur þátt í sýningunni. Hún hefur lokið námi af sviðshöfundabraut LHÍ og meistaranámi í ritlist við HÍ, og er þetta fyrsta leikverk hennar sem sett er á svið í atvinnuleikhúsi.
Saknaðarilmur fékk hreint magnaðar viðtökur á síðasta leikári og hlaut Grímuverðlaunin fyrir sýningu ársins, leikrit ársins, leikkonu ársins í aðalhlutverki og tónlist ársins. Alls hlaut sýningin átta Grímutilnefningar. Nokkrum aukasýningum hefur verið bætt við í nóvember og desember. Þessa sýningu verða allir að sjá!
Þegar fullorðin skáldkona missir móður sína er komið að stóra uppgjörinu. Nú fyrst er hún tilbúin til þess að horfast í augu við erfiða æsku sína, föðurmissi, geðveikina, ástina og sturlað lífshlaup sitt. Af hverju náðu þessar tvær konur aldrei sambandi, þó að þær hafi deilt öllu lífi sínu, og reynt að horfast í augu í gegnum sorgir og sigra? Verkið er áhrifarík saga af lítilli, draumlyndri stúlku sem verður að manísku skáldi, ástföngnum fíkli og stórskemmtilegum sögumanni. Hún er brotin, beitt og brjáluð. Geta áföll gert okkur veik? Erfist þjáning á milli kynslóða?
Magnaður efniviður Elísabetar Jökulsdóttur öðlast nýtt líf á leiksviðinu í meðförum sama listræna teymis og skapaði tímamótasýninguna Vertu úlfur. Einstaklega áhrifamikil sýning, gædd sjónrænum töfrum, um viðkvæm en brýn málefni sem snerta okkur öll. Sýningin verður einnig sýnd á leikferð til Akureyrar á leikárinu.
Saknaðarilmur leikrit eftir Unni Ösp Stefánsdóttur, byggt á bókum Elísabetar Jökulsdóttur Leikstjórn: Björn Thors
Jólaboðið hefur heillað áhorfendur Þjóðleikhússins á aðventunni á fyrri leikárum. Nú býðst okkur enn á ný að fylgjast með sögu íslenskrar fjölskyldu með því að gægjast inn í stofu á aðfangadagskvöld, reglulega, á einnar aldar tímabili!
Við fylgjumst með fjölskyldunni koma saman á jólunum, á ólíkum tímum, og upplifum með henni umrót heillar aldar; seinni heimsstyrjöldina, breytingar í sjávarútvegi, hippatímabilið, tæknivæðingu þjóðfélagsins og um leið vandræði fjölskyldunnar við að aðlaga sig að breyttum háttum og innbyrðis venjum. Fjölskyldan reynir að halda í hefðirnar en hin óhjákvæmilega framrás tímans setur hlutina úr skorðum og vekur sífellt nýjar spurningar og ný átök. Sprellfjörug og frumleg en um leið hjartnæm sýning þar sem leikararnir leika ólíkar persónur á ýmsum aldursskeiðum – og leikhópurinn breytist ár frá ári!
Jólaboðið Handrit: Gísli Örn Garðarsson og Melkorka Tekla Ólafsdóttir, byggt á verki Tyru Tønnessen, Julemiddag Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson
Hugljúft barnaleikrit um hin ástsælu Láru og Ljónsa, í aðdraganda jólanna
Bækur Birgittu Haukdal um Láru og Ljónsa njóta ómældra vinsælda hjá íslenskum börnum, og nú birtast þessar ástsælu persónur í fyrsta sinn á leiksviði. Leikverkið hentar vel yngstu áhorfendunum og er tilvalin skemmtun í aðdraganda jólanna. Birgitta Haukdal hefur samið ný lög fyrir leiksýninguna.
Verkið gerist á aðventunni og jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og gefa börnum í skóinn. En eina nóttina hverfur Ljónsi, uppáhalds mjúkdýrið hennar Láru sem, eins og flestir vita, er enginn venjulegur bangsi. Hvað getur hafa orðið af Ljónsa? Getur verið að hvarf hans tengist jólasveinunum á einhvern hátt?
Hversu langt er manneskjan reiðubúin að ganga til að fá óskir sínar uppfylltar?
Hún er kona í blóma lífsins, sjálfsörugg og opinská, eldklár, ákveðin og óhefluð. Henni gengur vel í starfi sínu og er að flytja inn í nýtt hús með manninum sem hún elskar. Það er bara eitt sem vantar – barn. Kærastinn er til í það, og það er ekki eftir neinu að bíða! En það sem virðist svo eðlilegur hluti af lífinu reynist ekki sjálfsagt. Eftir því sem biðin lengist virðist einhver ofursterkur kraftur ná sífellt öflugri tökum á henni. Löngun verður að þrá, þráin að þráhyggju og smám saman missir hún tökin… Hvernig bregst kona við ef lífið verður ekki við hennar heitustu bón?
Yerma er í seinn leiftrandi, áleitið og átakanlegt nútímaverk sem hefur slegið rækilega í gegn. Leikritið er byggt á samnefndu meistaraverki Federico García Lorca frá árinu 1934 sem gerist í spænsku sveitasamfélagi. Höfundur leikritsins, hinn heimsþekkti leikhúsmaður Simon Stone, flytur atburðarásina inn í borgarsamfélag samtímans og frumkraftarnir í verkinu birtast okkur í nýju ljósi. Gísli Örn Garðarsson leiðir hér saman einstaklega sterkan hóp leikara í fádæma kraftmiklu verki. Það er óhætt að lofa magnaðri kvöldstund!
Spennuþrungið fjölskyldudrama úr íslenskum samtíma
Móðirin hefur breyst. Hver var hún, hver er hún orðin? Hún er nýkomin heim eftir dvöl á heilsuhæli erlendis þar sem hún reyndi að jafna sig eftir alvarlegt áfall. Fjölskyldan tekur henni opnum örmum.
En það er eitthvað undarlegt við hana, eins og hún sé ekki sú sem hún var. Faðirinn elskar konu sína meira en allt annað og er á þönum við að halda öllu góðu. Sonurinn og Dóttirin reyna að gera sitt besta í nýjum aðstæðum. En öll glíma þau við eitthvað sem þau tala ekki um og ástandið er eldfimt. Og ekkert má fréttast út fyrir veggi heimilisins.
Hvaða áhrif hefur breyting Móðurinnar á hvert og eitt þeirra? Hvað hefur eiginlega gerst og hvað hafa þau að fela? Gætu nágrannarnir Ellert og Elsa varpað ljósi á eitthvað? Eða flækja þau bara málin?
Drepfyndið fjölskyldudrama beint úr íslenskum samtíma um það sem kraumar undir niðri, um það sem ekki er sagt, en einnig um það sem hefði betur verið látið ósagt. Hrafnhildur Hagalín er eitt okkar virtasta leikskáld, en meðal fyrri verka hennar eru Ég er meistarinn, Hægan Elektra og Sek.
Vinahópur sem er að útskrifast úr menntaskóla stendur á tímamótum sem eru í senn spennandi og ógnvænleg. Hver er ég og hver vil ég vera? Get ég sagt skilið við fortíðina og byrjað lífið upp á nýtt? Þori ég að taka stökkið og fylgja hjartanu, alla leið?
Elísabet er ung tónlistarkona sem undir mikilli pressu er að reyna að ljúka við sína fyrstu plötu í kjölfar þess að lag sem hún sendi frá sér varð óvænt vinsælasta lag ársins. Hluti vinahópsins er með henni í hljómsveit, og sumarið eftir útskriftina leigja vinirnir saman æfingahúsnæði til að klára plötuna, fíflast saman og ríghalda í tilfinninguna að vera ung og frjáls aðeins lengur. Elísabet áttar sig smám saman á því að hún er ástfangin af Helgu vinkonu sinni og við tekur átakamikið ferðalag þar Elísabet þarf að ákveða hvort hún eigi að þora að segja Helgu hug sinn og kannski hætta á að missa hana fyrir fullt og allt. En um leið og gleðin er í hámarki hjá vinunum er eins og jörðin byrji að gliðna undir fótum þeirra…
Fyrri leikverk Unnar Aspar í Þjóðleikhúsinu, verðlaunaverkin Vertu úlfur og Saknaðarilmur, hafa hreyft rækilega við leikhúsgestum og heillað þá, en í þessum leikritum hefur hún beint sjónum að mikilvægum málefnum í samtíma okkar. Nú vinnur hún með einni fremstu tónlistarkonu landsins af ungu kynslóðinni, Unu Torfadóttur og þær semja í sameiningu nýjan söngleik sem fjallar á beinskeyttan hátt um ungt fólk á Íslandi í dag. Stórvinsæl lög Unu Torfa hljóma í bland við ný og grípandi lög.
Una Torfadóttir kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir tveimur árum. Hver smellurinn á fætur öðrum hefur náð miklum vinsældum, og nýjasta plata hennar, Sundurlaus samtöl, hefur fengið frábærar viðtökur.
Stormur eftir Unu Torfadóttur og Unni Ösp Stefánsdóttur Tónlist: Una Torfadóttir Leikstjórn: Unnur Ösp Stefánsdóttir
Tónlistarstjórn: Hafsteinn Þráinsson Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir Búningar: María Th. Ólafsdóttir Lýsing: Ásta Jónína Arnardóttir Hljóðhönnun: Kristján S. Einarsson, Þóroddur Ingvarsson
Undurfalleg og heillandi ný leiksýning fyrir yngstu börnin, byggð á bók sem hefur notið mikilla vinsælda allt frá því að hún kom fyrst út árið 1985 og hefur unnið sér sess sem sígild perla innan íslenskra barnabókmennta.
Þegar Gunnjóna þarf á gamals aldri að flytja úr sveitinni sinni í borg stendur hún frammi fyrir ýmsum áskorunum sem fylgja því að aðlagast nýjum heimkynnum. Í fjölbýlishúsinu sem hún flytur í býr forvitið barn sem fylgist með óvenjulegum aðferðum gömlu konunnar við að búa sér til nýtt heimili, enda er engu líkara en Gunnjóna ætli að flytja sveitina með sér til borgarinnar!
Listrænir aðstandendur sýningarinnar, þær Agnes, Eva Björg og Sigrún, hafa getið sér gott orð fyrir hrífandi barnasýningar á vegum leikhópsins Miðnættis og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir framlag til barnamenningar. Þjóðleikhúsið hefur nú fengið þessar þrjár listakonur til að skapa nýja barnasýningu þar sem hugmyndaflugið og leikgleðin fá lausan tauminn! Aldursviðmið: 2ja-8 ára.
„Bara ömmur mega fara upp á þak.“
Blómin á þakinu Handrit: Agnes Wild, Eva Björg Harðardóttir, Sigrún Harðardóttir Byggt á bók eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur og Brian Pilkington
Leikstjórn: Agnes Wild Leikmynd, búningar og brúðugerð: Eva Björg Harðardóttir Tónlist: Sigrún Harðardóttir
Leikarar: Edda Arnljótsdóttir, Örn Árnason og fleiri.
Gunnar hét maður er kallaður var póstur. Var hann af öllum talinn álitlegasti, myndarlegasti og raddfegursti póstur á öllu landinu. Er hann nú úr sögunni. Nú víkur sögunni vestur. Póstmaður er nefndur Jón og var af mörgum talinn hinn ásættanlegasti, einkum af eiginkonu sinni, Ingibjörgu, en kostir hans voru þeim sameiginlegt áhugamál. Það var einhverju sinni að maður konungs var staddur á Íslandi og heyrði Jón syngja. Fór svo að Jón afréð að flytjast til Kaupinhafnar og gjörðist þar konunglegur tenór. Svo mjög taldi Jón þau Ingibjörgu af einum hug að honum láðist að láta hana vita af þessum vendingum. Þannig vill til að Kaupinhöfn liggur að sjónum, eins og hafnir gjarnan gera, svo það er aldrei að vita nema Ingibjörg finni Jón sinn í fjöru.
Sund er bráðskemmtilegt nýtt íslenskt verk sem fjallar um sundmenningu okkar Íslendinga með fyndnum og frumlegum hætti. Á sviðinu er sundlaug og leikarar bregða sér í hlutverk sundgesta sem hlera samtöl annarra í pottinum, sóla sig, sprikla í kvöldsundi, skella sér í gufuna og kalda pottinn. Sundlaugar eru musteri okkar Íslendinga og nú fær laugin sjálf að bregða sér á fjalir leikhússins!
Leikhópurinn Blautir búkar frumsýndi Sund í Tjarnarbíói við frábærar undirtektir á síðasta leikári. Sýning hlaut tvær tilnefningar til Grímuverðlauna, fyrir hljóðmynd og dans- og sviðshreyfingar ársins. Nú verður sýningin unnin áfram og endurfrumsýnd í Þjóðleikhúsinu, og leikari úr Þjóðleikhúsinu, Örn Árnason, bætist í hópinn!
Sund eftir Birni Jón Sigurðsson og leikhópinn Leikstjórn: Birnir Jón Sigurðsson Tónskáld: Friðrik Margrétar-Guðmundsson Sviðshreyfingar: Andrean Sigurgeirsson í samstarfi við leikhópinn Leikmynd og búningar: Kristinn Arnar Sigurðsson Lýsing: Fjölnir Gíslason Framleiðandi: Kara Hergils, MurMur Productions
Flytjendur: Andrean Sigurgeirsson, Erna Guðrún Fritzdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Friðrik Margrétar-Guðmundsson, Kjartan Darri Kristjánsson, Þórey Birgisdóttir, Örn Árnason. Blautir búkar í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Verkefnið er styrkt af Sviðslistasjóði.
Þú virðist vera með fleiri en einn vafraglugga-eða flipa opinn, miðarnir í þessum glugga eru ekki lengur fráteknir. Smelltu á "OK" til að leita að nýjum miðum.
Þú getur fært sætin þín með því að smella á takkann "Færa sæti". Þegar þú hefur fært sætin smellir þú á "Halda áfram" takkann til þess að staðfesta breytinguna eða X-ið efst til að hætta við.
Þessi viðburður er seldur með samfélags fjarlægðar mörkum svo kerfið mun velja bestu mögulegu sætin fyrir þig með tilliti til samfélags fjarlægðar á milli hópa.
Smelltu á ný sæti takkann efst í hægra horninu til að færa sætin þín til í salnum (þú færð sjálfkrafa bestu lausu sætin í völdu verðsvæði).
Smelltu á laust sæti til að færa öll sætin til í salnum.
Smelltu á laust sæti til að velja eitt sæti í einu. Þegar þú hefur valið sæti getur þú skipt um miðagerð með því að smella á nafnið í körfunni og velja nýja miðagerð. Sumar miðagerðir krefjast þess að þú veljir fleiri en eitt sæti.
Smelltu á ný sæti takkann efst í hægra horninu til að færa sætin þín til í salnum (þú færð sjálfkrafa bestu lausu sætin í völdu verðsvæði).
Ekki má skilja eftir stakt laust sæti við hlið þeirra sem þú velur.