Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Það snjóar lúðrum þann 30. nóvember kl. 15:00 þegar Lúðrasveit Reykjavíkur og norska lúðrasveitin Sagene Janitsjarkorps leiða saman lúðra sína og leiða okkur jafnframt inn í aðventuna með léttum vetrar-, aðventu- og jólalögum í bland við hátíðlega marsa, klassískan vals og Disney-lög.

Lúðrasveit Reykjavíkur er elsta starfandi lúðrasveit landsins og var stofnuð 1922 við sameiningu tveggja eldri lúðrasveita. Sveitin hefur aðsetur í Hljómskálanum við Tjörnina og heldur reglulega tónleika í Hörpu og leikur í skrúðgöngum og við ýmis tækifæri í borginni og víðar.

Sagene Janitsjarkorps (Lúðrasveit Sagene) var stofnað árið 1926 og er ein stærsta lúðrasveit Noregs. Hún hefur spilað víða um heim og unnið til verðlauna og heldur reglulega tónleika og setur upp söngleiki í tónleikahúsi sínu í Sagene-hverfi í Ósló, auk þess sem hún tekur þátt í skrúðgöngum, svo sem á norska þjóðhátíðardaginn, 17. maí.