Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Demeter strengjakvartettinn var stofnaður á haustmánuðum 2019 en meðlimir hans eru Laura Liu, Justyna Bidler, Lucja Koczot og Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir. Sunnudaginn 10. maí munu þær flytja prógram í Norðurljósasal Hörpu sem ber yfirskriftina Vordagur og samanstendur af verkum eftir Benjamin Britten, Ludwig van Beethoven og Maurice Ravel. Tónlistin fagnar endurkomu íslenska vorsins með því að kalla fram tilfinningar á borð við hlýju, ástríðu, kraft og ungæðislega orku.

Fiðluleikarinn Laura Liu er fædd og uppalin í Plano í Texas. Hún hefur komið fram sem einleikari og konsertmeistari með ýmsum hljómsveitum víðsvegar um Norður Ameríku sem og í Kína. Hún stundaði nám við New England konservatoríið og Rice tónlistarháskólann, þar sem hún var styrkþegi Hodder Classical Music skólastyrksins og Larry J. Livingston fiðluverðlaunanna. Áður en hún gerðist fastráðinn fiðluleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands var hún staðarlistamaður hjá m.a. Takács strengjakvartettinum og New York Philharmonic. Laura er með kennsluréttindi í jóga og nýtur lista og ferðalaga í frítíma sínum.

Áður en fiðluleikarinn Justyna Bidler flutti til Íslands, starfaði hún með Gorzów Wielkopolski Philharmonic hljómsveitinni og Orchestra Sinfonia Varsovia í Póllandi. Justyna er frá Piotrków Trybunalski í Póllandi og lærði fiðluleik hjá Marcin Baranowski við Ignacy Jan Paderewskiego tónlistarakademíuna í Poznan. Justina leikur reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómsveit Íslensku Óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún hefur mikla ástríðu fyrir kammertónlist og tók tvívegis þátt í Princess Daisy alþjóðlegu tónlistarhátíðinni í Póllandi þar sem hún kom fram með nafntoguðum tónlistarmönnum víðsvegar að úr heiminum. Í frítíma sínum hefur hún áhuga á ferðalögum, bókmenntum og eldamennsku.

Lucja Koczot er fædd og uppalin í Katowice, Póllandi. Sem víóluleikari hefur hún unnið með hljómsveitum á borð við National Polish Radio Symphony Orchestra, Sinfonia Varsovia, Sinfonietta Cracovia, Sinfonia Iuventus, Baltic Neopolis Orchestra og Gran Teatre de Liceu. Frá því í Janúar 2019 hefur hún starfað sem meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og auk þess spilað með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Hljómsveit Íslensku Óperunnar. Lucja hefur mikinn áhuga á kammertónlist og hefur leikið með kammerhópum í Póllandi, Þýskalandi, Hollandi, Sviss og Kína. Í frítíma sínum hefur hún ánægju af íþróttum og að borða góðan mat.

Sellóleikarinn Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir stundaði framhaldsnám í sellóleik hjá Morthen Zeuthen við Konunglegu Dönsku Tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og hjá Brandon Vamos við Indiana University, Jacobs School of Music. Hún var meðlimur í Kuttner strengjakvartettinum sem var m.a. staðarkvartett Indiana University veturinn 2018-19 auk þess að vera staðarkvartett við Beethovenhúsið í Bonn í mars 2018. Hrafnhildur hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og leikið inn á upptökur fyrir Naxos útgáfuna, bæði kammertónlist og hljómsveitarverk. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir spilamennsku sína, þ.á.m. Tónlistarverðlaun Rótarý, viðurkenningu frá Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat og Minningarsjóði Jóns Stefánssonar auk þess að hafa hlotið styrk til náms frá bæði Thor Thors og Leifur Eiriksson samtökunum.

Vordagur”

Benjamin Britten Three Divertimenti for String Quartet (1936)

I. March: Allegro maestoso

II. Waltz: Allegretto

III. Burlesque: Presto

Ludwig van Beethoven String Quartet in E-flat major, Op. 74 “Harp” (1809)

I. Poco adagio - Allegro

II. Adagio ma non troppo

III. Presto

IV. Allegretto con Variazioni

- hlé -

Maurice Ravel String Quartet in F major (1903)

I. Allegro moderato - très doux

II. Assez vif - très rythmé

III. Très lent

IV. Vif et agité

Program Notes

Benjamin Britten (1913-1976) Three Divertimenti for string quartet

Þrjú Divertimentó er björt og stutt svíta sem minnir að mörgu leiti á fantasíukvartett Brittens fyrir óbó og strengjatríó op. 2, þó tónheimurinn minni um margt á tónlist Frank Bridge. Tónlistin er lagræn og hver kafli ber með sér sinn sérstaka ferska blæ. Opnu fimmundirnar í byrjun fyrsta kafla eru mögulega ekki í stíl þeirrar hljómfræði sem Britten lærði hjá kennara sínum John Ireland, en þær setja tóninn fyrir hressilega sveitastemmingu. Vals annars kaflans er mun hefðbundnari og vekur jafnvel upp nokkurs konar fortíðarþrá, á meðan þriðji og síðasti kaflinn, Burlesque, sýnir hæfileika Brittens til að skrifa tónlist hlaðna snerpu og virtúósíteti.

Britten skrifaði Divertimentóin þrjú upprunalega sem þætti fyrir stóra svítu sem hann ætlaði að nefna Go play, boy, play, þar sem hver kafli átti að vera karakterlýsing á skólafélögum hans. Divertimentóin voru fyrst flutt af Stratton strengjakvartettinum í Wigmore Hall í London í febrúar 1936. Viðtökurnar voru dræmar og Britten tók þær nærri sér og skrifaði; ,,verkinu var tekið með flissi og kuldalegri þögn”. Britten dró útgáfu verksins til baka og það var ekki gefið út aftur fyrr en eftir dauða hans.

Ludwig van Beethoven (1770-1827) String Quartet Op. 74 “Harp

Hinn svokallaði Hörpukvartett eftir Beethoven dregur viðurnefni sitt af plokkuðum strengjum sem hljóma í byrjun fyrsta kafla verksins. Tilvísunin í hörpuna, hið rómantíska hljóðfæri, á vissulega vel við verkið, en kvartettinn er með þeim tilfinningaríkustu sem Beethoven skrifaði. Kvartettinn leit dagsins ljós á sumar- og haustdögum ársins 1809, á þeim tíma sem tónskáldið var yfir sig ástfangið af Theresu Malfatti, sem neitaði bónorði Beethovens stuttu síðar. Fyrr sama ár hafði Haydn fallið frá, aðeins nokkrum vikum eftir að Napoleon réðst inn í Vínarborg og hertók borgina. Þetta voru því á ýmsum sviðum órólegir tímar fyrir Beethoven, þrátt fyrir að hann hefði nýlega náð hagstæðu samkomulagi við Erkihertogann Rudolph og Prinsana Kinsky og Lobkowitz. Samkomulagið kvað á um árlegar greiðslur til Beethovens sem myndu gera honum kleift að lifa þægilegu lífi næstu árin. Beethoven tileinkaði Hörpukvartettinn Lobkowitz í þakklætisskyni, en 10 árum áður hafði hann einnig tileinkað honum sex strengjakvartetta op. 18.

Hörpukvartettinn var fyrsti strengjakvartett Beethovens sem var gefinn út einn og sér, en áður höfðu verið gefnir út sex kvartettar saman undir ópusnúmerinu 18 og þrír kvartettar, kenndir við Razumovsky, undir ópusnúmerinu 59. Allir kvartettar Beethovens sem á eftir komu fylgdu fordæmi Hörpukvartettsins sem einstök verk.

Maurice Ravel (1875-1937) String Quartet in F major

Ravel var aðeins 28 ára þegar hann skrifaði sinn fyrsta og eina strengjakvartett. Hann var þá enn nemandi að nafninu til í tónsmíðabekk Gabríel Fauré við Parísarkonservatoríið. Kvartettinn er einmitt tileinkaður ,,mínum kæra meistara Gabríel Fauré” en það má auk þess glögglega sjá að Ravel hefur orðið fyrir áhrifum af strengjakvartett sem Debussy skrifaði tíu árum áður. Persónulegur stíll Ravels skín þó hér í gegn, sér í lagi í litbrigðum og laglínum. Bæði Debussy og Ravel litu á strengjakvartettinn sem tengingu við gamaldags formhugsun klassíska tímabilsins á meðan stíll þeirra beggja byggðist að miklu leiti á því að brjóta sér leið frá hinni akademísku formhugsun. Í báðum verkum má einmitt heyra hið klassíska form sem var allsráðandi í strengjakvartettum fyrri tíma togast á við andstæður klassíkurinnar sem eru einnig allsráðandi í tónlistinni, ekki síst í tónblæ og notkun laglína.

Laglínur, hljómur og taktur eru taldar vera grunnundirstöður tónlistar. Strengjakvartett Ravels, skrifaður í byrjun 20 aldarinnar, kynnir til leiks tónheim sem fjórðu undirstöðuna sem er hér ekki síður mikilvæg en hinar þrjár. Mismunandi tegundir af spilatækni svo sem plokkaðir strengir, notkun dempara, notkun brotinna hljóma og mismunandi staðsetning bogans á strengnum, eru hér ekki síður mikilvægur hluti af framvindu verksins en mismunandi stef og úrvinnsla þeirra. Í öðrum og þriðja þætti má sérstaklega heyra hvernig form kaflanna ræðst ekki síst af mismunandi tónblæ sem braut vissulega í bága við hefðir klassíska tímans.