Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Beethoven í 250 ár
Kammersveit Reykjavíkur dregur upp svipmynd af Ludwig van Beethoven í tilefni þess að árið 2020 eru 250 ár frá fæðingu hans. Leikin verður tónlist sem lýsir lífi hans og list, í kynningu hljóðfæraleikara Kammersveitar Reykjavíkur.

Tilfinningaþrungið tónmál Beethovens sprengdi upp reglur klassíska tímabilsins og þandi form þess. Með því varpaði Beethoven klassíska tímabilinu yfir í það rómantíska. Síðan þá hefur ekkert tónskáld haft dýpri áhrif á tónlistarsöguna enda eiga verk hans fullt erindi við samtímann og halda áfram að koma á óvart með ferskleika sínum og snilld.

Tónleikarnir hefjast á því að 11 ára undrabarnið Beethoven verður kynnt til leiks með fyrsta verki hans sem gefið var út. Þá munu æskuverk hljóma sem eru góðir fulltrúar hins klassíska Beethovens, undir áhrifum frá samtímanum og sér í lagi Mozart. Meðal þeirra eru blásaraoktettinn Rondino og Septett.

Frá síðari tímabilum ferilsins verður leikin kammerútgáfa af 1. þætti áttundu sinfóníu Beethovens sem Hrafnkell Orri Egilsson félagi í Kammersveitinni útsetti sérstaklega fyrir tónleikana.

Kammersveitin leikur einnig þátt úr píanótríói í D dúr op. 70 og Fúgu fyrir strengjakvintett op. 137.

Ekki er hægt að minnast Beethovens án þess að skoða strengjakvartettana sem hann samdi á síðustu æviárum sínum, þegar hann var heyrnarlaus og þjakaður á líkama og sál.

Tónleikunum lýkur á Cavatinu úr strengjakvartett op. 130, sem hljómar nú í geimfarinu Voyager 1 sem ferðast hefur á 56.000 km hraða í 41 ár og er nú komin út úr sólkerfinu, í um 22.000.000.000 km fjarlægð frá jörðinni.