Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Barokkbandið Brák er skipað hópi fólks sem hefur sérhæft sig að hluta í upprunaflutningi í námi erlendis og vill nýta þessa þekkingu sína til tónleikahalds og verkefna á Íslandi.
Sveitin hefur upp á síðkastið fengið til liðs við sig jafnt íslenska og erlenda hljóðfæraleikara, söngvara og dansara til að glæða nýju lífi í tónlist barokk og endurreisnartímans.
Hefur Brák hlotið mikið lof hvarvetna á síðustu misserum. Þá hafa þónokkrir tónleikar bandsins verið hljóðritaðir og útvarpaðir af Ríkisútvarpinu og hafa gagnrýnendur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins lofað Brák fyrir líflegt og vandað tónleikahald og gefið tónleikum hópsins fjórar og fjórar og hálfa stjörnu í dómum sínum. Barokkbandið Brák hefur í tvígang verið tilnefnt til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem Tónlistarflytjandi Ársins 2017 og 2018 en bandið fékk einnig tilnefningu fyrir Tónlistarviðburð Ársins 2018.

Frumkvöðlar úr fortíð og nútíð
Barokkbandið Brák snýr aftur á Sígilda Sunnudaga með tvennum spennandi tónleikum á vorönn 2020. Á þessum fyrri tónleikum fær að hljóma nýtt verk eftir Hlyn A. Vilmars sem pantað var sérstaklega af Barokkbandinu Brák. Að auki verða leikin strengjasinfónía eftir Carl Philipp Emanuel Bach, Tvöfaldur konsert fyrir fiðlu og sembal eftir Joseph Haydn og kammerverk eftir Johann Friederich Fasch. Elfa Rún Kristinsdóttir mun leika einleik í konserti Haydns ásamt sérstökum gesti Brákar, ítalska semballeikaranum Francesco Corti.

Allt áhugafólk um vandaðan upprunaflutning og nýja tónlist ættu ekki að láta þessa tónleika framhjá sér fara.