Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Kristín R. Sigurðardóttir sópran og Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari flytja þekkta sígilda rómantíska þýska ljóðasöngva eftir Franz Schubert, Richard Strauss og Gabriel Fauré. Kristín og Arnhildur hafa starfað saman um árabil og haldið saman tónleika bæði í Reykjavík og úti á landsbyggðinni.

Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir lauk 8.stigs söngprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 1993 með Ragnheiði Guðmundsdóttur sem aðalkennara. Síðan sótti hún óperusöngnám hjá Rina Malatrasi, á Ítalíu 1993-96. Hún lauk LRSM kennsluréttindanámi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2001 með Þuríði Pálsdóttur sem söngkennara. Hún starfaði sem söngkennari hjá Söngskóla Sigurðar Demetz í frá árinu 2000-2016 og sem sópransöngkona á Íslandi frá árinu 1999. Í dag kennir Kristín söng við Söngskólann í Reykjavík frá árinu 2017. Kristín hefur haldið marga einsöngstónleika vítt og breitt um Ísland, og sungið á fjölda óperutónleika, kirkjutónleika, kammer, ljóða, barrokk og óratoríu tónleika. Hún hefur einnig frumflutt tónlist eftir íslensk og erlend tónskáld,  komið fram sem einsöngvari td í Þýskalandi, Englandi, Færeyjum, Ungverjalandi, Kanada, North Dakota í U.S.A, Tékklandi and Austurríki. Hún hefur sungið nokkur óperuhlutverk ásamt „Óperustúdíó Austurlands“.

Arnhildur Valgarðsdóttir hóf sjö ára píanónám við Tónlistarskólann í Kópavogi en tveimur árum síðar við Tónlistarskólann á Akureyri. Þaðan lauk hún 8. stigi og starfaði um skeið við píanóleik, meðal annars hjá Leikfélagi Akureyrar. Þá lá leiðin til Royal Scottish Academy of Music and Drama en þaðan útskrifaðist Arnhildur árið 1995 með BA-gráðu og CPGS-diplómu í píanóleik með söng sem aukagrein. Arnhildur er mjög virk í íslensku tónlistarlífi og starfar bæði sjálfstætt sem píanóleikari og í samstarfi við hina ýmsu tónlistarmenn. Hún hefur komið fram á fjöldamörgum tónleikum innanlands og utan. Arnhildur lauk kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og er starfandi organisti og kórstjóri við Fella og hólakirkju. Auk þess að sinna þeim störfum hefur Arnhildur leikið mikið einleiksverk fyrir píanó eftir tónskáldið Leoš Janácek. Arnhildur er tónlistarmaður í stöðugri þróun og hefur nú útvíkkað svið sitt, hefur lagt stund á jazzpíanóleik og söngnám.