Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

- Íslenskar dægurperlur -

Á vegum Sígildra Sunnudaga verða tónleikar tileinkaðir íslenskum dægurperlum þar sem sameina krafta sína afburðatónlistarfólk frá öllum sviðum. Ragnheiður „Ragga“ Gröndal syngur, með liðsinni Tríó Nordica sem skipað er þeim Auði Hafsteinsdóttur, Bryndísi Höllu Gylfadóttur og Monu Kontra, útsetningar Þórðar Magnússonar á íslenskum dægurperlum bæði gömlum og nýlegum.  

Ragnheiður hefur verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi og sent frá sér fjórar sólóplötur; Ragnheiður Gröndal árið 2003, Vetrarljóð árið 2004, After the Rain árið 2005 og Þjóðlög árið 2006. Hún hefur einnig sungið inn á plötur fyrir Jón Ólafsson, Hauk Gröndal, bróður sinn, og hljómsveitina Ske. Ragnheiður er handhafi Íslensku tónlistarverðlaunanna og fékk m.a. verðlaun fyrir bestu plötuna og var valin söngkona ársins árið 2004.

Trío Nordica var stofnað árið 1993 af þeim Auði Hafsteinsdóttur, Bryndísi Höllu Gylfadóttur og Monu Kontra. Tríóið hefur komið reglulega fram víða, á Íslandi sem og erlendis, og í hvívetna hlotið mikið lof fyrir líflegan og litríkan leik. Trio Nordica hefur fjölda verka á verkefnaskrá sinni. Fyrir utan helstu píanótríó tónbókmenntanna er lögð áhersla á að flytja verk eftir konur, norræn píanótríó og nútímaverk.

Þórður Magnússon hefur þegar getið sér orð sem afburða tónskáld á vettfangi íslenskrar nútímatónlistar auk þess að vera eftirsóttur útsetjari. Þórður hefur hlotið fjölda verðlauna, tilnefninga og styrkja, þar sem hæst ber tilnefninguna árið 2004 fyrir tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs, en það sama ár hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir besta sígilda tónverk ársins fyrir fyrstu sinfoníu sína.