Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Á lokatónleikum starfsársins býður Kammersveit Reykjavíkur til suðrænnar tónlistarveislu.

Yfirskrift tónleikanna er Aires Tropicales og vísar bæði til eins tónverksins á efnisskránni og einnig til uppruna tónskáldanna,  en þau koma frá Brasilíu, Kúbu, Uruguay, Spáni og Argentínu. Boðið er upp á hressilega tangóstemningu, spænska ballettónlist og kúbverksa dansa, svo fátt eitt sé nefnt.

Kvintettinn eftir brasilíska tónskáldið Villa-Lobos var saminn í París 1928 og frumfluttur 1930. Á þessum tíma hafði Villa-Lobos samið mörg verk sem höfðu titilinn „Choro“ og var þá að vitna í brasilíska þjóðlagatónlist sem inniheldur m.a. spuna og flókna rytma.

Tónlistin er í einum þætti, en músiklega má þó skipta verkinu niður í smærri kafla.  Víða er tónlistin hvöss og kaótísk, en inni á milli eru ljóðrænni kaflar.

Áhugaverð er hljóðfæraskipanin, en þetta er óhefðbundinn blásarakvintett að því leyti að tónskáldið skiptir franska horninu út fyrir enskt horn og er hópurinn þá orðinn að tréblásarakvintett.

Frá Brasilíu bregðum við okkur til Kúbu, en Paquito D´Rivera er kúbverskur saxófón- og klarinettuleikari. Aires Tropicales var samið árið 1994 og er upphaflega 7 þættir og leikur Kammersveitin fimm þeirra. Verkið hefst á stuttum þætti, Alborada, en Alborada er serenaða eða kvöldlokka, yfirleitt leikin á sekkjapípu eða óbó með undirleik lítillar trommu. Tónskáldið fer þó aðra leið og lætur klarinettuna hefja leik.

Habanera er hægur kúbverskur dans, hér í þremur fjórðu takti, leikinn af þremur hljóðfæraleikurum. Vals Venezolano er líflegur vals frá Venesúela og hinn hressilegi kúbverski dans Contradanza kemur í kjölfarið. Lokaþátturinn, Afro, hefst á hægu altflautusólói, en fljótlega fer í gang kraftmikill sex-áttundu rytmi sem er endurtekinn á ýmsa vegu til loka verksins.

Miguel de Aguila er fæddur í Montevideo, Uruguay. Hann lærði tónsmíðar í San Francisco og einnig dvaldi hann um 10 ára skeið í Vínarborg þar sem hann stundaði nám og tónsmíðar. Aguila hefur búið í Los Angeles síðan 1992. Tónlistin hans á það til að kinka kolli til suðurameríska upprunans og á það einnig við um Tango Trio sem var samið árið 2002 í New York.

Það má heyra tilvitnanir í hinn hefðbundna tangó frá Argentínu og Uruguay og þá sérstaklega í fyrri hluta blómaskeiðs tangósins, milli 1910 og 1940. Aftur á móti fylgir verkið ekki formi hins hefðbundna argentíska tangós heldur fer víðar um, kemur t.d. við í brasilískri sömbu og dönsum frá Uruguay.

Manuel de Falla samdi ballettinn El amor brujo á árunum 1914-1915. Síðar gerði hann fleiri en eina útsetningu af verkinu fyrir minni hópa og leikur Kammersveitin útgáfu sem hann lauk við árið 1926. Í ballettinum er hin unga sígaunastúlka Candela elt af draugi látins eiginmanns síns. Til að losna við hann standa allir sígaunarnir i hring í kringum varðeld um miðnætti og Candela dansar elddansinn. Það verður til þess að draugurinn birtist og þau dansa saman. Leikurinn hitnar, hraðinn eykst og að lokum dregst draugurinn inn í eldinn, sem verður til þess að hann hverfur að eilífu.

Annað verk eftir Miguel Del Aguila er á efnisskránni, Disagree! fyrir klarinettu, fiðlu, selló og píanó. Að sögn tónskáldsins er verkið yfirhlaðið af augljóslega ósamrýmanlegu þemaefni. Ýmsir árekstar verða milli hljóðfæra, en smám saman verður til vinalegri umræða og leikgleði þar sem allir átta sig á að þeir geta leikið tónlistina saman þrátt fyrir mismunandi uppruna stefjanna. Hið fjölbreytta þemaefni er að mestu fengið úr suðuramerískum dönsum eins og Malambo, Vals Criollo, Tanogo og Milonga.

Lokaverk tónleikanna er svíta með þremur lögum eftir argentíska tangósnillinginn Astor Piazzolla. Útsetningarnar voru gerðar sérstaklega fyrir Kammersveit Reykjavíkur af þessu tilefni af Marcelo Costas, argentískum píanóleikara sem hefur sérhæft sig í útsetningum og stjórnun á verkum Piazzolla.

Efnisskrá:

Heitor Villa-Lobos (18878-1959)                        
Quinteto (em forma de chôros)

Paquito D'Rivera (1948)                                   
Aires Tropicales                                                                                                                       
Alborada
Habanera
Vals Venezolando
Contradanza
Afro

Miguel del Aguila (1957)                                   
Tango Trio op. 7          

Hlé

Manuel de Falla (1876-1946)     
Pantomime & Ritual Fire Dance
From El Amor Brujo, Spánn
Pantomim
Danza ritual del fuego (Elddansinn)

Miguel del Aguila                     
Disagree!        

Astor Piazzolla (1921-1992)      
Svíta fyrir 9 hljóðfæraleikara. Úts. Marcelo Costas     
Imágenes 67
Romance del diablo     
La muerte del ángel