Skip to content

Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Stórsöngvararnir Gissur Páll, Valgerður Guðna, Oddur Arnþór og nú í fyrsta sinn, stjörnutenórinn Elmar Gilbertsson, verða Óperudraugar um áramótin en söngvararnir blása til nýárstónleika í Hörpu í þriðja sinn. Óperudraugarnir koma fram ásamt strengjasveit og píanóleikara en tónlistarstjóri Óperudrauganna er Óskar Einarsson, sem löngu er landsfrægur fyrir útsetningar og tónlistarstjórn á stórviðburðum. Óperudraugarnir munu syngja uppáhalds sönglög sín og aríur á tónleikunum. Með þeim á sviðinu verður strengjakvintett sem leiddur er áfram af Roland Hartwell og einvala liði hljóðfæraleikara.

Söngvarana þarf varla að kynna fyrir nokkrum hérna heima á Íslandi. Gissur Páll hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína á Rodolfo í La Boheme hjá Íslensku óperunni vorið 2012, hann lærði á Ítalíu og hefur flakkað um víða veröld til að syngja. Valgerður Guðnadóttir söng hlutverk Bertu í Rakaranum frá Sevilla sem Íslenska óperan setti upp í fyrra, en óhætt er að segja að hún hafi verið ein af uppáhaldssöngkonum Íslendinga í tæpa tvo áratugi. Oddur Arnþór hefur á undanförnum misserum sungið á erlendri grund en flýgur reglulega til Íslands til að troða upp með Íslensku óperunni eða Óperudraugunum. Svo er það spútnik tenórinn og sjarmörinn Elmar Gilbertsson sem valinn var söngvari ársins á Grímunni í sumar fyrir hlutverkið Don Ottavio, í uppsetningu Íslensku óperunnar á Don Giovanni eftir Mozart. Hann sló fyrst í gegn í Óperunni Ragnheiði fyrir rúmlega þremur árum og hefur verið óstöðvandi síðan.

Tryggðu þér miða strax!