Skip to content

Tix.is

Harpa

Sala hefst 25. nóv. - kl. 12:00

Miðaverð:0 kr.

Um viðburðinn

Þakkarorða íslenskrar tónlistar 1. desember í Hörpu:
Magnúsi Eiríkssyni fagnað og þjóðinni boðið

Þakkarorða íslenskrar tónlistar verður veitt í fyrsta sinn í Hörpu með hátíðlegum og hljómfögrum hætti þann 1. desember á Degi íslenskrar tónlistar. Verðlaunin eru heiðursverðlaun nýstofnaðs Tónlistarráðs og er þeim ætlað að heiðra starf og sköpun þess listamanns er fyrir valinu verður og um leið bjóða landsmönnum upp á einstaka tónlistarveislu.

Tónlistarráð starfar samkvæmt tónlistarlögum er samþykkt voru 10. maí á Alþingi en hlutverk ráðsins er meðal annars að vera stjórnvöldum og Tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar og taka þátt í stefnumótun Tónlistarmiðstöðvar og eflingu íslensks tónlistarlífs. Menningar- og viðskiptaráðherra skipar Tónlistarráð til þriggja ára en í því sitja m.a. fulltrúar Félags tónskálda og textahöfunda, Félags hljómplötuframleiðenda, Félags íslenskra hljómlistarmanna, STEFs, RÚV, Tónlistardeildar LHÍ, Tónlistarborgarinnar Reykjavík, auk 10 annarra hagaðila.

Boðsmiðar aðgengilegir á mánudag*

Eitt fyrsta verkefni Tónlistarráðs er tilnefning heiðurshafa Þakkarorðu íslenskrar tónlistar sem að þessu sinni hlotnast tónskáldinu og textahöfundinum ástsæla, Magnúsi Eiríkssyni. Af því tilefni verður efnt til glæsilegra heiðurstónleika í Eldborg í Hörpu kl. 20:00 þann 1.desember þar sem bestu lög Magnúsar verða flutt af mörgum af fremstu flytjendum landsins. Þeirra á meðal eru Bríet, Ragga Gísla, Pálmi Gunnarsson, Ellen Kristjáns, Mugison, KK og Valdimar Guðmundsson, auk einvala liðs hljóðfæraleikara undir stjórn tónlistarstjórans Eyþórs Gunnarssonar. Kynnar verða Jón Jónsson og Salka Sól.

Landsmönnum gefst kostur á að sækja tónleikana með því að sækja sér boðsmiða hér með því að smella á "sækja miða". Miðar verða aðgengilegir frá kl. 12:00 mánudaginn 25. nóvember og gildir þar hið fornkveðna "fyrstur kemur, fyrstur fær".

*Athugið að aðeins er hægt að sækja 2 miða á mann og eingöngu úthlutuð sæti í boði, ekki verður hægt að velja sæti í miðaafhendingaferlinu. 

Umsjón: Móðurfélagið ehf.