Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Í ljósi samkomutakmarkana vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur Sinfóníuhljómsveitar Íslands ákveðið að aflýsatónleikunum. Miðahafar geta nýtt upphæðina á aðra tónleika hljómsveitarinnar eða fengið miðana endurgreidda í miðasölu Hörpu.

Á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands stjórnar Daníel Bjarnason sinfóníu nr. 40 eftir Mozart ásamt því að sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir þreytir frumraun sína með hljómsveitinni. Álfheiður hefur vakið feykilega athygli undanfarin ár fyrir glæsilegan og fágaðan söng. Hún stundar mastersnám við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín þaðan sem hún lauk bakkalárnámi með hæstu einkunn vorið 2018. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum meistaranámskeiðum hjá heimsþekktum einsöngvurum, svo sem Anne Sofie von Otter og Emmu Kirkby, og árið 2019 tók hún þátt í námskeiði hjá Renée Fleming í Carnegie Hall þar sem kannaðar voru nýjar leiðir í flutningi og framsetningu ljóðasöngs. Álfheiður er þegar farin að hasla sér völl á óperusviðinu, hefur m.a. sungið í Staatsoper Berlín og mun í október þreyta frumraun sína við óperuhúsið í Basel sem engillinn í óperu Oliviers Messiaen um heilagan Frans frá Assisi.

Á tónleikunum hljómar einnig hin sívinsæla sinfónía nr. 40 eftir Mozart, sem er um margt tímamótaverk og var næstsíðasta sinfónían sem þessi mikli tónsmíðameistari samdi, aðeins þremur árum fyrir andlát sitt. Daníel Bjarnason er hljómsveitarstjóri á tónleikunum en hann hefur hlotið mikla athygli undanfarin ár bæði fyrir tónlist sína og hljómsveitarstjórn. Daníel var á árunum 2015–2018 staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gegnir nú stöðu aðalgestastjórnanda.

Miðasala hefst mánudaginn 5. október kl. 13
Í samræmi við sóttvarnarlög verður sætaframboð á þessa tónleika takmarkað og eitt autt sæti milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Við biðjum tónleikagesti að gæta vel að sóttvarnarreglum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er á tónleikana.

EFNISSKRÁ
Forleikur tilkynntur síðar
Aríur tilkynntar síðar
Wolfgang Amadeus Mozart Sinfónía nr. 40

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Daníel Bjarnason

EINSÖNGVARI
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir