Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Tónlistarhópurinn Cauda Collective býður tónleikagestum upp á djöflatertu. Kammertónlistarhnallþóru! Flutt verða verk sem öll eru samin af núlifandi tónskáldum og fjalla um hættulegustu myrkraverur heimsins, innri djöfla og skuggahliðar mennskunnar. En mennirnir gera sér oftast ekki grein fyrir myrkrinu fyrr en það er sett í samhengi við ljósið og því verða einnig flutt verk sem eru jafnan talin með björtustu tónverkum 20. aldarinnar.

Cauda Collective
Hulda Jónsdóttir, fiðluleikari
Sigrún Harðardóttir, fiðluleikari
Þóra Margrét Sveinsdóttir, víóluleikari
Þórdís Gerður Jónsdóttir, sellóleikari
Jane Ade Sutarjo, píanóleikari
Björk Níelsdóttir, sópran

Eva Björg Harðardóttir sér um útlit og hönnun

Spiegel im Spiegel, 1978
Arvo Pärt, 1935-

Verkið Spiegel im Spiegel verður flutt í nýrri útsetningu Cauda Collective þar sem mismunandi hljóðfæri og raddir skiptast á að leika laglínuna með píanóinu, dansandi um rýmið, kastandi laglínunni á milli sín úr skuggum. Spegillinn í speglinum er minimalískt og dáleiðandi og hrífur fólk við fyrstu hlustun og er í þessu tilfelli í hlutverki lognsins á undan storminum.

Psychomachia, 1987
Þorsteinn Hauksson, 1949

Psychomachia þýðir sálarstríð, en verkið, sem er fyrir dramatískan sópran og selló, er byggt á ljóði eftir Prudentius (348-410 f.Kr.). Ljóðið lýsir togstreitunni milli dyggða og lasta þar sem herjar hin eilífa barátta milli góðs og ills.

Nýtt verk, 2020 (frumflutningur)
Ingibjörg Friðriksdóttir, 1989

Cauda Collective frumflytur nýtt verk eftir Ingibjörgu Friðriksdóttur.

Fur Alina, 1976
Arvo Pärt, 1935

Þetta verk þykir á meðal þeirrar fegurstu tónlistar sem samin hefur verið á síðustu árum en fyrstu leiðbeiningar verksins til flytjandans er að spila á friðsælan og innhverfan hátt. Tónlistin er einföld en innileg og líður áfram í tímaleysi, en enginn taktvísir er í verkinu og tónstyrkurinn alltaf veikur.


Black Angels, 1971
George Crumb, 1929

Black Angels fyrir rafmagnaðan strengjakvartett eftir George Crumb.Tónskáldið samdi verkið sem harmakvein yfir stríðsátökum en þegar það var samið geysaði stríð Bandaríkjamanna í Víetnam og er fyrsti kafli verksins Rafmögnuð skordýr vísun í hljóðin sem heyrast þegar gerð er árás úr herþotum. Titill verksins Svartir englar er gjarnan talinn tákna fallna engla eða breyska menn sem fremja ódæði og myrkraverk. Þetta verk er hvað þekktast fyrir óvenjulegar viðbætur í strengjakvartett, kristalsglös og ýmis konar slagverk, auk þess sem að strengjahljóðfærin eru mögnuð upp. Verkið er mjög inniblásið af talnaspeki, það inniheldur kafla eins og Djöflatónlst, Dauðadans og Tónlist Guðs og engin tilviljun er að tónskáldið lauk við tónsmíðina föstudaginn þráttánda í Mars árið 1970.

Spiegel im Spiegel, 1978
Arvo Pärt, 1935

Verkið er leikið aftur, í annarri útsetningu, og rammar þar með inn tónleikana og felur í sér spegilinn á móti speglinum sem leikinn var í upphafi.

Sígildir sunnudagar 2020 – 2021