Tveir landsfrægir skemmtikraftar láta plata sig til að fjárfesta í gömlu sveitahóteli, sem má muna fífil sinn fegri. Á sama tíma finnst eldgömul beinagrind í grennd við hótelið, en hauskúpuna vantar. Í kjölfarið gerast rosalegir atburðir og það er deginum ljósara að á hótelinu í Botni er … jú, reimt. En þegar allt virðist vonlaust kemur hins vegar í ljós að reimleikar geta haft vissa kosti í för með sér, sérstaklega á tímum harðnandi samkeppni í ferðaþjónustu.
Þetta er saga um ástir og örlög, græðgi og örlæti, fjandskap og vináttu, spikk og span, listir og snobb, tímann og vatnið. En líka um gauksklukku.
Þeir Karl Ágúst Úlfsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hafa unnið að gerð þessa söngleikjar í meira en áratug, en hann er saminn í Þrastaskógi, Reykjavík, Colorado, Flórens, sveitum Toscana, á Akureyri, í Hrísey, Bárðardal, á Gran Canaria, í Garðabæ, Kópavogi, Róm og á Sikiley. Það hefur því farið í hann blóð, sviti og tár. Og dass af rauðvíni. Nú leikstýrir Karl Ágúst verkinu í FG, en Þorvaldur annast tónlistarstjórn. Og svo er það Brynhildur Karlsdóttir sem er danshöfundur sýningarinnar.