Tix.is

Um viðburðinn

Söngsveitin M’ANAM verður með tónleika í Iðnó mánudaginn 20. Apríl. Hópurinn sem var stofnaður árið 2018 er að koma fram á Íslandi í fyrsta sinn. Á tónleikum hópsins í Iðnó má heyra lög af fyrstu og einu plötunni sem hópurinn hefur gefið út. Eftir tónleikana í Reykjavík mun hópurinn fara til Kanada og halda tónleika í Vancouver.

Söngsveitin M'ANAM sækir innblástur sinn í mikilfenglega náttúru Íslands og Írlands og kannar þar ótroðnar slóðir í að tengja saman þessa tvo menningarheima. Tónlistin sem M'ANAM flytur er frumleg og nýstárleg. Þar tengja raddir þeirra í M'ANAM saman gamlar sögur frá báðum löndunum sem ná 1500 ár aftur í tímann.  

M'ANAM (sem er írska og þýðir ,,Sálin mín") kom fyrst saman 2018. Hópurinn varð til þegar meðlimir úr sönghópnum Olga Vocal Ensemble og hinum víðfræga sönghóp ANÚNA frá Írlandi sameinuðu krafta sína. Því er óhætt að segja að sú reynsla sem þessir tveir hópar miðla til áheyranda sinna í gegnum M'ANAM er gríðarlega mikil. En tengslin milli Íslands og Írlands er það sem þeir brenna fyrir.

Lög þeirra og texta má rekja aftur til 9. aldar og eru þau öll samin eða útsett af þeim sjálfum en þó aðallega af Michael McGlynn sem er heimsþekktur í heimi kórlagatónlistarinnar. Það er eins auðvelt fyrir þá að syngja harmkvæði frá öldum víkinga (,,Deyr fé") eins og það er að syngja gamalt enskt þjóðlag í nýjum búningi (,,The Sheep Stealer"). M'ANAM er eins og ferskur blær inn í heim karlakóra þar sem fyrirfram ákveðnar hefðir og stílar eru brotnir upp og endurskilgreindir með náttúrulegan og óþvinguðum hljómi radda þeirra. Fyrsta hljómplatan þeirra kom út í Nóvember 2019.

M'ANAM koma fram í laginu Clarity á plötunni Tres, nýrri hljómplötu japönsku jazz-rokkhljómsveitarinnar Mouse on the Keys. Og einnig má heyra í þeim í tónlist úr tölvuleiknum World of Warcraft (Blizzard), nánar tiltekið "Warbringers - Jaina", sem var gefið út árið 2018.

Heimasíða M’ANAM: www.manam.ie