Tix.is

Um viðburðinn

Sunnudaginn 1.mars kl.16 verður flutt í Hljóðbergi Hannesarholts verkið Stílæfingar eftir Raymond Queneau, sem er eitt frumlegasta og þekktasta verk í frönskum bókmenntum síðari ára. Sveinn Einarsson er leikstjóri flutningsins og milli kafla leika þau Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari, Einar Jóhannesson, klarinettuleikari og Sigurður I. Snorrason, klarinettuleikari létta skemmtitónlist sem franska tónskáldið Louis Dunoyer de Segonzac samdi til flutnings með verkinu árið 2008.

Höfundurinn tilheyrði hópnum sem hélt til á Saint Germain des Près eftir stríð, Simone de Beauvoir, Camus, Sartre, Juliette Greco og ótal annarra listamanna, en þar þótti mikil listræn gerjun. Þetta verk Queneaus er sérstætt og þekkt um heim allan, því að þar er sama sagan sögð í nær 100 útgáfum, stíltilbrigðum, bragarháttum og bragleysi, í hástemmdu máli og á götumáli.

Þýðing þessa verks þykir mikið vandaverk, en hér er það flutt i íslenskum búningi Rutar Ingólfsdóttur; verkið var flutt á listahátíð á Hvoslæk í Fljótshlíð við mikinn fögnuð í sumar og verður nú vegna fjölda áskorana einnig flutt í Reykjavik. Farið er að fordæmi Comedie Françasie, þjóðleikhúss Frakka og fjórir úrvalsleikarar flytja valda kafla verkinu, þau Arnar Jónsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir og Þór Tulinius. Bókin kom fyrst út hjá Gallimard-útgáfunni 1947 og hefur margoft verið gefin út síðan, síðast 2012, enda er bókin mikið lesin í Frakklandi og hefur einnig verið notuð í kennslu.

Þýðing Rutar kom út hjá bókaútgáfunni Uglu síðastliðið sumar og mun þetta vera 36. tungumálið sem verkið er þýtt á.

Veitingahúsið í Hannesarholti er opið frá 11.30 - 17 alla sunnudaga.