Tix.is

Um viðburðinn

Oddur Arnþór og Bjarni Frímann flytja ljóðasöngva Hugo Wolf við texta Eduard Mörike á hádegistónleikum í Hannesarholti sunnudaginn 26.janúar kl.12.15.

ODDUR ARNÞÓR JÓNSSON hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem söngvari ársins fyrir hlutverk sitt í Brothers, margverðlaunaðri óperu Daníels Bjarnasonar. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 fyrir hlutverk sitt í Don Carlo, sem var frumraun hans í Íslensku óperunni.

Oddur hefur sungið fjölda óperuhlutverka við Íslensku óperuna og ber þar helst að nefna Don Giovanni, Figaro í Rakaranum frá Sevilla og Rodrigo í Don Carlo. Meðal annarra óperuhlutverka sem hann hefur sungið eru Wolfram í Tannhäuser, Schaunard í La bohème og Prins Yeletsky í Pique Dame.

Sem ljóðasöngvari hefur hann meðal annars flutt Das Lied von der Erde eftir Gustav Mahler í Garnier-óperunni í París, Vetrarferðina og Schwanengesang  á Schubert hátíðinni í Vilabertran á Spáni.

Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum ljóðakeppnum. Hann fékk Schubert verðlaunin og verðlaun sem besti ljóða- og óratóríu flytjandinn í Francesc Viñas keppninnni í Barcelona. Hann sigraði Brahms-keppnina í Pörtschach í Austurríki og varð þriðji í Schubert keppninni í Dortmund, Þýskalandi.

Bjarni Frímann Bjarnason er aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur stjórnað hljómsveitinni við ýmis tækifæri. Hann tók við stöðu tónlistarstjóra Íslensku óperunnar í janúar 2018 og hefur stjórnað uppfærslum hennar á Toscu, Hans og Grétu, La Traviata, Brothers og Brúðkaupi Fígarós.

Bjarni Frímann stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur og lauk prófi í víóluleik frá Listaháskóla Íslands. Árið 2009 bar hann sigur úr býtum í einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék í framhaldinu víólukonsert Bartóks með sveitinni á tónleikum. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín.

Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann hefur stjórnað mörgum af fremstu hljómsveitum á Íslandi, meðal annars Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, CAPUT og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Þá hefur hann samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis. Bjarni Frímann hefur seinni ár komið víða fram sem píanóleikari með söngvurum og sem kammertónlistarmaður m.a. í Berlínarfílharmóníunni og Konzerthaus í Vínarborg.

Árið 2012 vann Bjarni Frímann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Sama ár stjórnaði hann flutningi á óperunni UR eftir Önnu Þorvaldsdóttir við óperuna í Osló, í Chur og Basel og á Listahátíð í Reykjavík. Árið 2016–2017 stjórnaði Bjarni Frímann hljómsveitartónleikum með Björk Guðmundsdóttur í Mexíkóborg, Fílharmóníunni í Los Angeles og í Hörpu.

Veitingahúsið í Hannesarholti er opið frá 11.30-17 þennan dag.