Tix.is

Um viðburðinn

Hér getur þú keypt miða á 3 eða fleiri viðburði hátíðarinnar á 20% afslætti. 

Hlökk mun frumflytja tónleika-innsetningu þar sem frumraun þeirra í plötuútgáfu verður flutt í heild sinni. Platan er spiluð þrisvar sinnum í gegn en meðlimir Hlakkar spinna í kringum tónlistina á diskinum ásamt því að fara með ljóð og texta. Á sama tíma er myndböndum, sem voru sérstaklega unnin út frá tónlist plötunnar, varpað á vegg ásamt lifandi ljósum hljóð- og ljósskúlptúrsins Huldu. Hlökk hefur fengið til liðs við sig listamenn úr mismunandi áttum: Hekla Magnúsdóttir þeramínleikari, Mikael Máni Ásmundsson jazzgítarleikari, Frank Aarnink slagverksleikari og dansararnir Sóley Frostadóttir og Erla Rut Mathiesen munu dreifa sér um svæðið og taka þátt í spunanum. Áhorfendum er frjálst að ganga um rýmið, skoða sig vel um, líta inn í píanóið, nálgast flytjendur og koma og fara eins og þeim hentar.


Tónlistin er samin af Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur, ljóð eru eftir Ragnheiði Erlu Björnsdóttur og myndböndin eru unnin af Lilju Maríu Ásmundsdóttur í samstarfi við Ingibjörgu Ýri.

------

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Lilja María Ásmundsdóttir og Ragnheiður Erla Björnsdóttir kynntust er þær stunduðu nám við Listaháskóla Íslands. Þær stofnuðu hljómsveitina Hlökk árið 2015 þar sem þær notuðust helst við íslensk þjóðlög, spuna og eigin tónsmíðar við gömul ljóð. Nú hefur hljómsveitin þróast yfir í listhópinn Hlökk þar sem þær nýta eiginleika mismunandi listgreina, þá helst tónlistar, myndlistar og ritlistar, til að skapa ný verk. Hlökk gaf út sína fyrstu plötu í september 2019. Platan ber heitið Hulduhljóð og hefur nýlega hlotið Kraumsverðlaunin.


Myrkir Músikdaga