Tix.is

Um viðburðinn

EKKI MINNA Duo er harmóníku+selló dúó búsett í Kaupmannahöfn sem einsetur sér að flytja nýja norræna tónlist. Á tónleikum þeirra á Myrkum músíkdögum munu Andrew (UK) og Jónas (IS) flytja ný verk eftir dönsk tónskáld samin fyrir dúóið, sem og frumflytja nýtt gagnvirkt gjörningstónverk eftir Áslaugu Rún Magnúsdóttur.

Sellistinn Andrew Power og harmóníkuleikarinn Jónas Ásgeir Ásgeirsson léku fyrst saman á Pulsar nútímatónlistarhátíðinni 2017, þar sem þeir frumfluttu verk eftir Matias Vestergård Hansen. Það var tilvalin byrjun á samstarfi þeirra, því báðir eiga þeir sameiginlega ástríðu að kynna fyrir áhorfendum spennandi nýja norræna tónlist á grípandi máta.
Drengirnir eiga sér báðir langan feril í samtímatónlist að baki. Andrew hefur m.a. spilað með Ulysses Ensemble, Ensemble Intercontemporarin og IEMA og er meðmæltur meðlimur Ulysses Network. Jónas vinnur nær eingöngu með samtímatónlist. Hann hefur unnið saman með og frumflutt verk eftir fjölmörg tónskáld og er fyrsti íslenski harmóníkuleikarinn til að leika einleikskonsert með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann vinnur nú að nýjum konsert eftir Finn Karlsson og að upptöku geisladisks með íslenskri samtímatónlist fyrir klassíska harmóníku.
EKKI MINNA Duo hefur þrátt fyrir ungan aldur unnið með þónokkrum merkum tónskáldum, jafnt að sköpun nýrra verka og uppsetningu á eldri verkum. Þeir hafa unnið með og flutt verk eftir Christian Winther Christensen og Simon-Steen Andersen og jafnframt frumflutt verk eftir Mads Emil Dreyer og Loïc Destremau. Síðustu misseri hefur dúóið unnið með Áslaugu Rún Magnúsdóttur og mun frumflytja gjörningstónverk hennar á Myrkum músíkdögum.

jonasasgeirsson.com
andrewpowercello.com

Myrkir Músikdagar