Tix.is

Um viðburðinn

Bára Gísladóttir og Skúli Sverrisson hófu samstarf sitt árið 2017 og hafa síðan skapað aragrúa tónsmíða sem gefnar verða út á fjórföldum vínyl síðar á þessu ári. Á Myrkum músíkdögum munu þau frumflytja brot af spunatónsmíðum sínum fyrir raf- og kontrabassa.

Skúli Sverrisson er tónskáld og bassaleikari. Hann nam bassaleik í Berklee í Boston en flutti síðar til New York þar sem hann vann um árabil áður en hann sneri aftur til Íslands og stofnaði ásamt fleirum Mengi, sem hefur síðan þá gilt lykilhlutverki í íslensku menningarlífi. Skúli hefur komið að útgáfu ótal hljómplatna ásamt því að semja tónlist fyrir kvikmyndir, sviðslistir og innsetningar. Þá hefur hann komið víða að sem flytjandi en er þá kannski þekktastur fyrir samstarf sitt með Laurie Anderson, Lou Reed, Ryuichi Sakamoto, Jóhanni Jóhannssyni, Blonde Redhead, Bill Frisell og Anthony Burr, svo fáeinir séu nefndir.

Bára Gísladóttir er tónskáld og kontrabassaleikari, búsett í Kaupmannahöfn. Tónlist hennar hefur verið leikin víða af sveitum á borð við Ensemble Adapter, Ensemble InterContemporain, Ensemble recherche, hr-Sinfonieorchester, Nordic Affect, Riot Ensemble, Sinfóníuhljómsveit Danmerkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Útvarpssinfóníuhljómsveit Póllands.

Myrkir Músikdagar