Tix.is

Um viðburðinn

EVITA í Hörpu - aukatónleikar vegna mikillar eftirspurnar.

Einn vinsælasti söngleikur heims - tónleikauppfærsla í Eldborg. 

Umsagnir gesta 15. og 16. nóvember sl.
“Stórkostlegur söngleikur sem snart mig inn að kviku. Jóhanna Guðrún dásamleg og fullkomin í þessu hlutverki.”
“Algjörlega magnað!”
“Stórkostleg sýning í gær þvílíkur söngur og leikur.”
“Takk fyrir mig, frábær sýning.”
“Ævintýraleg flott sýning. Jóhanna Guðrún stórkostleg. Takk fyrir mig!”
“Frábær sýning, naut hverrar mínútu:”
“...erum alveg í skýjunum, þvílík sýning og Jóhanna var stórkostleg.”
“Aðalsöngvarinn, Simon Bailey stórkostlegur.”
“Helgi var verulega flottur í þessu hlutverki.”
“Salka Sól var heillandi.”

EVITA fjallar um Evu Perón, argentínska þjóðhetju, stjórnmálaleiðtoga og seinni eiginkonu forseta landsins, Juan Perón. Verkið segir sögu Evu, frá uppvaxtarárum og leið hennar til valda, frá góðgerðarstörfum og einkalífi, allt til sviplegs dauða hennar árið 1952.

Söngleikurinn EVITA er eftir þá Andrew Lloyd Webber og Tim Rice, höfunda Jesus Christ Superstar, en tónlistin kom fyrst út á hljómplötu árið 1976 og sló í gegn víða um heim. Tveimur árum síðar var söngleikurinn settur upp í fyrsta sinn í London og var þá valinn besti söngleikur ársins en ári síðar hlaut verkið Tony verðlaunin á Broadway, fyrst breskra söngleikja. EVITA er enn reglulega sett á svið um allan heim og árið 1996 var gerð vinsæl kvikmynd þar sem Madonna og Antonio Banderas voru í aðalhlutverkum.

Stórsöngkonan Jóhanna Guðrún fer með hlutverk Evu Perón í þessari tónleikauppfærslu. Simon Bailey syngur sögumanninn Ché en þar er á ferðinni virtur leikari og söngvari úr West End leikhúsunum í London. Í traustum höndum Þórs Breiðfjörð er þriðja aðalhlutverkið, hershöfðinginn og forsetinn Juan Perón. Helgi Björns túlkar tangósöngvarann Augustin Magaldi og Salka Sól syngur hlutverk ungrar hjákonu Peróns.

Sviðssetningunni stýrir enski danshöfundurinn Lee Proud sem starfað hefur jöfnum höndum á Íslandi, í West End og víðar og hlaut nýverið Grímuverðlaunin fyrir Dans- og sviðs­hreyfingar ársins í sýningunni Matthildi.

Tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og stýrir hann úrvalshljómsveit sem skipa:

Einar Scheving - trommur, Diddi Guðnason - slagverk, Eiður Arnarsson - bassi, Davíð Sigurgeirsson - gítar, og hljómborðsleikararnir Kjartan Valdemarsson, Vignir Þór Stefánsson og Karl Olgeirsson auk 11 manna strengja- og blásturssveitar SinfoniaNord.

Á tónleikunum kemur einnig fram Söngsveitin Fílharmónía.

Umsjón með framkvæmd hefur TMB Events ehf en áður hefur félagið staðið að glæsilegum tónleikasýningum á The Phantom Of The Opera, Jesus Christ Superstar og The War Of The Worlds í Hörpu og haldið eftirminnilega Todmobile gestatónleika með stórstjörnum á borð við Midge Ure (Ultravox), Jon Anderson (YES), Nik Kershaw og Genesis kempunni Steve Hackett.