Tix.is

Um viðburðinn

Jólakraftaverk ársins birtist ykkur í formi uppistandssýningunni Heilögustu mínar í Tjarnarbíó 21.desember!


Uppistandshópurinn Fyndnustu eru hér á ferðinni með sérstaka jólasýningu þar sem uppistand blandast tónlist, dansi, trópíkalskri sviðsmynd og hvaða rugli sem Heilögustu mínum dettur í hug.


Það er komið að þessum yndislega tíma: Jólahátíðinni. Kertaljós, fæðing Jesú, óheilagt magn af jólaöli og matarboð með ættingjum sem þú deilir ekki pólitískum skoðunum með.

Hver kannast ekki við að gráta í Melabúðinni korter í lokun á aðfangadag vegna þess að það er ekki til rétta tegundin af grænum baunum? Höfum við ekki öll drukkið okkur full á Þorláksmessu bara til að vakna með ennþá meiri kvíða en vanalega á aðfangadag? Svo kannski finnst sumum jólin bara næs og ekki stressandi, og við trúum að það fólk sé mögulega ekki að ljúga!


Til að gera þessa sýningu extra sérstaka hafa þær fengið til liðs við sig Heklu Elísabetu Aðalsteinsdóttur, en hún gerði allt vitlaust sem kynnir á uppistandi Fyndnustu minna í Þjóðleikhúskjallaranum, og Ásdísi Maríu söngdívu sem flýgur alla leið frá Berlín með þýsk jólalög í farteskinu!