Tix.is

Um viðburðinn

In Paradisum er að þessu sinni yfirskrift hinna árlegu tónleika kammerkórsins Schola Cantorum í Hallgrímskirkju í tilefni af Allraheilagramessu. Titillinn er sóttur í heiti eins kafla úr Sálumessu eða Requiem sem ótal stórbrotin tónverk hafa verið samin við.

Á tónleikunum flytur kórinn fjölbreytta blöndu af trúarlegum tónverkum og útsetningum eftir íslenska og erlenda höfunda sem flest eru frá síðari árum. Schola Cantorum heldur áfram á þeirri braut sem mörkuð var með útgáfu hljómdisksins Meditatio sem vakti athygli víða um heim fyrir fágaðan söng og vandaða útgáfu. Verkin sem flutt verða á tónleikunum eru krefjandi en aðgengileg kórtónlist, án undirleiks, þar sem horft er inn á við - og veita innblástur til íhugunar, kyrrðar og minningar sálna sem kvatt hafa jarðvistina.

Stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Þetta verður áhrifarík, upplífgandi og sálarbætandi tónlistarstund í flutningi eins af bestu kórum Íslands í hinum einstaka hljómi Hallgrímskirkju.

Kammerkórinn Schola cantorum var stofnaður árið 1997 af stjórnanda sínum Herði Áskelssyni, kantor við Hallgrímskirkju. Strax árið eftir stofnun bar kórinn sigur úr býtum í alþjóðlegri kórakeppni í Noyon í Frakklandi. Allar götur síðan hefur starfsemi Schola cantorum verið viðamikil og fjölbreytt sem endurspeglast í efnisskrá sem spannar fjölröddun endurreisnar til samtímatónlistar. Þá hefur frumflutningur íslenskra kórverka jafnan vegið þungt. Kórinn hefur sungið tónleika víðsvegar um Evrópu en einnig í Japan og Bandaríkjunum þar sem Schola cantorum kom fram á fernum tónleikum í boði Los Angeles Philharmonic á Reykjavík Festival í Los Angeles 2017. Kórinn er jafnan verið skipaður vel menntuðum atvinnusöngvurum sem takast á við þau krefjandi verkefni sem liggja fyrir hverju sinni. Fyrir rúmum 10 árum var kammerkórinn tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs og valinn tónlistarflytjandi ársins 2016 á Íslensku tónlistarverðlaununum.