Tix.is

Um viðburðinn

Ljósahátíð – hátíðarsöngvar úr austrinu

Á jólatónleikum Söngfjelagsins í Langholtskirkju sunnudaginn 8. desember renna saman í eitt kröftugir dansrytmar og laglínur ættaðar frá rússnesku steppunum og gyðingaþorpum Mið- og Austur-Evrópu.

Rauði þráðurinn á tónleikunum er tónlist frá austur-evrópska menningarsvæðinu; rússnesk, úkraínsk, hvít-rússnesk og jiddísk-/klezmertónlist. Öll tengjast lögin landfræðilega, tilfinningalega og tónlistarlega – og það sem meira er; þessir menningarheimar eru fullir af gleði og hátíð!

Sérstakir gestir Söngfjelagsins á tónleikunum koma úr hringiðu klezmer- og balkantónlistarinnar; þau Polina Shepherd, Merlin Shepherd, Igor Outkine, Sarah Harrison og Ásgeir Ásgeirsson.
Stjórnandi Söngfjelagsins er Hilmar Örn Agnarsson og meðleikari Iveta Licha.

Á efnisskrá þessara níundu jólatónleika Söngfjelagsins er hvort tveggja sígild og þjóðlagatónlist; trúarleg hátíðar- og jólatónlist, ástarlög, borðsálmar og danslög, rússneskir söngvar frá 18. og 19. öld, jiddísk lög tengd ljósahátíðinni Hanukkah, aðalhátíð gyðinga á vetrarsólstöðum, og klezmertónlist. Samkvæmt hefðinni verður einnig frumflutt nýtt íslenskt jólalag, samið sérstaklega fyrir Söngfjelagið. Höfundur lagsins að þessu sinni er söngfjelaginn Hjörleifur Hjartarson, einnig þekktur sem helmingur dúósins Hundur í óskilum.

Tónleikarnir verða tvennir, sunnudaginn 8. desember kl. 16 og 20 í Langholtskirkju.

Miðaverð: 4.500 kr. Miðasala á Tix.is og hjá kórfélögum.

Við hlökkum til að sjá ykkur!


FLYTJENDUR

Söngfjelagið

Hilmar Örn Agnarsson, stjórnandi

Polina Shepherd, klezmerstjarna – söngur og píanó

Merlin Shepherd, klarinett

Igor Outkine, söngur, harmonikka og balalaika

Sarah Harrison, fiðla og fleiri strengjahljóðfæri

Ásgeir Ásgeirsson, mandólín og fleiri strengjahljóðfæri

Iveta Licha, harmóníum og meðleikari Söngfjelagsins


Söngfjelagið er 60 manna blandaður kór, stofnaður haustið 2011 og er löngu orðinn kunnur í tónlistarlífi höfuðborgarinnar. Fastir liðir á verkefnaskrá Söngfjelagsins eru árlegir jólatónleikar, þar sem ávallt er frumflutt nýtt verk samið sérstaklega fyrir kórinn, og sumarfagnaður í upphafi sumars. Þá flytur Söngfjelagið jazz, þjóðlög, Passíusálma Megasar og hvaðeina sem andinn blæs kórnum í brjóst. Kórinn hefur haft ólík þemu á jólatónleikum sínum en á síðustu árum hafa meðal annars verið ensk, írsk og keltnesk og suður – amerísk þemu.