Tix.is

Um viðburðinn

Fyrir réttum fjörutíu árum festi Tómas R. Einarsson kaup á sínum fyrsta kontrabassa í hljóðfæraverslun í Osló. Í tilefni af þessum tímamótum kemur í októberlok 2019 út platan Gangandi bassi sem hefur að geyma glæný lög úr smiðju hins afkastamikla tónskálds og bassaleikara. Á plötunni rifjar Tómas upp þær tónlistarlegu stefnur og strauma sem hann hefur komist í tæri við síðustu fjóra áratugina; hefðbundna sveiflutónlist, stundum með díxílandsvip, djassblús, hröð sveiflulög sem eru óður til be-bop tónlistarinnar, hæga sveiflu og vaggandi latínlög. Í upptökum var lagt upp úr órafmögnuðum hljóðheimi: kontrabassi með girnistrengjum, kassagítar og skinnin í kóngatrommunum.

Efnt verður til útgáfutónleika í Kaldalóni, Hörpu, sunnudaginn 17. nóvember 2019 kl. 17 en ásamt Tómasi koma fram saxófónleikarinn Óskar Guðjónsson Ómar Guðjónsson á gítar og Sigtryggur Baldursson á slagverk.

Halldór Guðmundsson, rithöfundur, hefur þetta að segja um nýja plötu Tómasar:

,,Heildin gefur ótrúlega gott yfirlit yfir feril Tómasar, nema hér lætur hann algerlega undan sér það sem hefur alltaf búið í honum: að vera melódískur. Hann vitnar óhikað í jazzbiblíuna (Upp og niður er til dæmis sólskinsmegin við götuna) og laglínurnar eru hver annarri betri, líka við þær óvenjulegu aðstæður að vera bornar fram af bassanum, stundum í afar fínu samspili víð gítarinn. Diskurinn færir okkur fyrir vikið ekki bara yfirlit yfir feril Tómas sem tónskálds, heldur gefur sérlega góða mynd af spilamennsku hans. Þetta er sannkallað ævintýri á gönguför."