Tix.is

Um viðburðinn

Halldór Eldjárn blæs til útgáfutónleika fyrir sína fyrstu plötu, Poco Apollo sem gefin er út af Mengi Records. Á tónleikunum verður platan flutt í heild sinni af Halldóri ásamt djúpum strengjakvartett og tveimur slagverksleikurum. Halldór hefur komið víða við í tónlistarlífi Reykjavíkur síðasta áratug, en hann er einn af stofnendum hljómsveitarinnar Sykur, en þau hafa gefið út tvær plötur og spilað á tónleikum um heim allan. Þá hefur Halldór unnið að tónlistarverkefnum með listamönnum á borð við Björk og Ólaf Arnalds. Ásamt því að vera virkur í listalífinu er Halldór einnig tölvunarfræðingur en í verkum sínum sameinar hann jafnan krafta tölvutækninnar og tónlistarinnar.


Hér má hlusta á lagið Tunglryk af plötunni: https://soundcloud.com/h-dor/tunglryk-0


Halldór fjallar um plötuna:

Platan hófst sem tónsmíðatilraun. Ég hef alltaf verið mjög áhugasamur um geiminn og tunglferðirnar. NASA býr yfir stóru ljósmyndasafni frá þeim ferðum, eða um 14.000 myndir sem geimfararnir tóku í Apollo tunglferðunum. Mér finnast þessar myndir svo heillandi því þær eru svo hversdagslegar, fyrir utan þá staðreynd að vera teknar af mönnum á tunglinu. Ég velti því fyrir mér hvort ég gæti notað hverja einustu mynd úr þessu safni sem grunn í lítið tónverk.


Þannig varð veftónverkið Poco Apollo til. Það samanstendur af vefsíðu sem sækir handahófskenndar myndir úr safni NASA og umbreytir þeim í tónverk. Blæbrigði tónverksins breytast og verða til út frá innihaldi myndarinnar. (Hægt er að hlusta á verkið hér: https://pocoapollo.hdor.is)


Platan er sjálfstæð útfærsla á fjórum verkanna úr veftónverkinu. Í hvert skipti sem ég heyrði eitthvað sem mér líkaði mjög vel við úr safninu, þá skrifaði ég það niður hjá mér. Á endanum valdi ég svo fjögur lög úr þessu safni og gerði útsetningar fyrir strengi, slagverk og hljóðgervla. Eitt lagið, Lending, er í þremur mismunandi útgáfum á plötunni, upprunalegri útgáfu, sellóútgáfu og píanóútgáfu.


Ég fékk til liðs við mig góða vini mína til að spila með mér á plötunni, en hún var hljóðrituð í mörgum bútum yfir tveggja ára tímabil í Mengi og Stúdíó Mosfellsbæ. Þau sem spila á plötunni eru Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir á marimbu, Matthías Hemstock á slagverk, Ásta Kristín Pjetursdóttur og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir á víólur, Sverrir Arnórsson á selló, Borgar Magnason á kontrabassa og Þórdís Gerður Jónsdóttir sólóleikur á selló. Strengjaupptökum stjórnaði Albert Finnbogason. Master gerði Friðfinnur Sigurðsson. Umslag eftir Albert Muñoz.