Tix.is

Um viðburðinn

Anna Málfríður Sigurðardóttir heldur hádegistónleika í Hannesarholti sunnudaginn 3.nóvember kl.12.15. Yfirskrift tónleikanna er Ómur náttúrunnar.

Náttúran hefur verið okkur mönnunum innblástur um ómunatíð, ekki síst listamönnum. Myndlistarmenn hafa gefið okkur ótal tilbrigði af náttúrumyndum, en tónskáldin hafa líka sótt innblástur og hugmyndir til náttúrunnar og efnisskrá tónleikanna endurspeglar þetta.

Í verkum eftir Grieg, Liszt og Sinding eru m.a. óður til vorsins, skógarþytur og vorþytur. Vatnið sindrar í gosbrunnum Villa d‘Este og Tchaikowsky leiðir okkur í gegnum andblæ mánaðanna. Náttúrurómantík og vor í sinni, þótt hausti að um hríð.

Anna Málfríður Sigurðardóttir er Ísfirðingur að uppruna og hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar, þar sem Ragnar H. Ragnar var aðal píanókennari hennar. Framhaldsnám stundaði hún við Guildhall School of Music and Drama, London og útskrifaðist þaðan sem einleikari og píanókennari árið 1971. Hún stundaði síðan frekara nám í píanóleik hjá prófessor Brigitte Wild til ársins 1974.

Frá 1974 hefur Anna starfað sem píanókennari og píanóleikari, bæði á Íslandi og erlendis, síðast við Tónskóla Sigursveins í Reykjavík. Hún hefur einnig verið leiðbeinandi á námskeiðum í píanóleik. Anna Málfríður hefur haldið tónleika víðsvegar, bæði hér heima og erlendis og komið fram sem einleikari, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Trier, en hún hefur einnig verið virk í kammermúsík og meðleik.

Veitingastofur Hannesarholts eru opnar til kl.17. Dögurður framreiddur til kl.14.30.