Tix.is

Um viðburðinn

Söngvar um lífið

 - textar Þorsteins Eggertssonar og sögurnar á bakvið þá í Salnum 25. október kl.20

 

Lagalisti tónleikanna er smekkfullur af slögurum eins og þessum:

Ljúfa líf
Glugginn
Ég elska alla
Heim í Búðardal
Fjólublátt ljós við barinn
Lífsgleði
Dans, dans, dans
Söngur um lífið

En þessi lög og um það bil þúsund önnur eiga það sameiginlegt að innihalda texta eftir Þorstein Eggertsson einn afkastamesta textahöfund landsins.

Söngvararnir Matti Matt og Heiða Ólafs flytja lögin og textana ásamt hljómsveit en Þorsteinn sjálfur segir sögurnar á bakvið textana og rifjar upp eftirminnilega tíma úr Íslenskri tónlistarsögu.


Þorsteinn Eggertsson fæddist í Keflavík 1942. Hann fór í Héraðsskólann á Laugarvatni haustið 1957. Bekkjarbróðir hans þar (og síðar herbergisfélagi) var Ingimar Eydal (fjórum árum eldri og þá þegar orðinn liðtækur píanóleikari með hljómsveitum). Þeir fóru að halda skólaböll aðra hverja helgi; Ingimar spilaði á orgel og Þorsteinn söng – aðallega amerísk rokklög. Þorsteinn heyrði ekki alltaf textana í útvarpinu svo hann fór að semja sína eigin í staðinn fyrir að syngja eins og páfagaukur, en það gerðu margir söngvarar á þeim tíma.
1960 efndi K.K. sextettinn til söngvarakeppni, valdi tíu söngvara og hélt nokkra tónleika með þeim. Að því loknu fékk Þorsteinn fast starf sem söngvari með hljómsveitinni í tæpt hálft ár en K.K. skipti oft um söngvara. Í kjölfarið stofnaði Þorsteinn hljómsveitina Beatniks með nokkrum vinum sínum í Keflavík. Trommari þeirrar hljómsveitar, Eggert Kristinsson, varð einn af stofnendum Hljóma þrem og hálfu ári síðar – en þá var Þorsteinn fluttur í myndlistanám til Kaupmannahafnar. Þar söng hann með hljómsveitum og kom m.a. fram á sumartónleikum í Hróarskeldu, einskonar fyrirrennara Roskilde Rock Festival, sumarið 1964. Hann var, sömuleiðis, farinn að skrifa greinar fyrir Alþýðublaðið – og náði því að taka viðtöl við m.a. The Beatles og The Rolling Stones.
Eftir heimkomuna, 1965, gerðist Þorsteinn blaðamaður við tvö tímarit fyrir ungt fólk; Húrra ásamt Hauki Morthens og Póstinn ásamt Ólafi Gauk og fór að semja söngtexta fyrir ýmsar hljómsveitir, s.s. Ríó tríóið, Dáta og Hljóma. Með tímanum fjölgaði hljómsveitunum og textarnir fóru að skipta hundruðum. Upp úr níunda áratug síðustu aldar fór Þorsteinn að koma fram sem söngvari á söngskemmtunum, auk þess sem hann  sá um útvarps- og sjónvarpsþætti, setti upp sínar eigin sýningar td. fyrir Broadway í Mjódd, Hótel Ísland og Sjallan á Akureyri. Og – upp á síðkastið hefur hann varið að taka upp hljómplötu með konunni sinni, Fjólu Ólafs, þar sem langflest verkin eru eftir þau hjónin.

 

Í hljómsveitinni er valinn maður í hverju rúmi en hana skipa:

Söngur: Heiða Ólafs og Matti Matt

Sögumaður: Þorsteinn Eggertsson

Gítar og raddir og hljómsveitastjórn: Helgi Reynir

Píanó/Hljómborð: Vignir Þór Stefánsson

Bassi: Birgir Kárason

Trommur og raddir: Ingólfur Sigurðsson

 

“ Ef þú vilt fá - skammt af ánægju, gleði og hamingjuvon,
þá að ættir þú að hlust’ á texta eftir hann Þorstein Eggertsson “