Tix.is

Um viðburðinn

Sönghátíð í Hafnarborg býður upp á tónleika með Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Kórinn frumflytur ör-lög og samlokur eftir ýmis tónskáld og verk eftir listamanninn Pál á Húsafelli, í tilefni sextugsafmælis listamannsins, með þátttöku hans á hljóðfæri sem hann smíðaði sjálfur. Hljóðfærin verða til sýnis fyrir og eftir tónleika og í hléi.

Nánari upplýsingar á www.songhatid.is

Kammerkór Suðurlands samanstendur af tónlistarfólki af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Stjórnandi kórsins frá stofnun hans árið 1997 er Hilmar Örn Agnarsson. Kórinn hefur komið fram víða, m.a. á Cycle Music & Art Festival, Sumartónleikum í Skálholti, Myrkum Músíkdögum, Jazzhátíð og Listahátíð í Reykjavík, Tectonics-samtímatónlistarhátíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands; haldið tónleika í Frakklandi, Grænlandi, Svíþjóð, Southwark dómkirkjunni í Lundúnum ogá Salisbury-listahátíðinni á Englandi; auk þess að hljóðrita tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarp.

Stór hluti kórstarfsins hefur frá upphafi einkennst af náinni samvinnu við íslensk og erlend tónskáld. Á seinni árum hefur kórinn vakið alþjóðlega athygli og ber þar hæst samstarfið við breska tónskáldið Sir John Tavener, en kórinn flutti fyrstu samfelldu tónleikadagskrána hérlendis helgaða verkum hans í Skálholti árið 2004. Í október 2010 kom út geisladiskurinn Iepo Oneipo (Heilagur draumur) með tónlist Taveners, sem var m.a. valinn diskur mánaðarins hjá tónlistartímaritinu Gramophone, auk tilnefningar sem plata ársins í flokki klassískrar/samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2011.
Undanfarin misseri hefur Kammerkór Suðurlands, í samstarfi við bresku umboðsskrifstofuna Curated Place, verið einn þriggja evrópskra flytjendahópa sem taka að sér frumflutning á nýjum tónsmíðum útvalinna umsækjenda í alþjóðlega tónskáldaverkefninu Moving Classics, sem er liður í styrkjaáætlun Evrópusambandsins, Creative Europe og er auk þess styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS).

Sönghátíð í Hafnarborg verður haldin 28. júní - 14. júlí 2019. Nafn hátíðarinnar í ár vísar í eitt vinsælasta lag ástsæla tónskáldsins Atla Heimis Sveinssonar, sem féll frá fyrir skömmu. Hátíðin heiðrar minningu Atla Heimis með lokatónleikum þar sem sex söngvarar flytja úrval sönglaga hans, en tónleikunum lýkur með samsöng flytjenda og áhorfenda. Á Sönghátíð í Hafnarborg verða í boði alls sjö tónleikar með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum og margvísleg námskeið fyrir börn og fullorðna - leika sem lærða. Listrænir stjórnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari. www.songhatid.is