Tix.is

Um viðburðinn

Sönghátíð í Hafnarborg býður upp á Fjölskyldutónleika Dúó Stemmu, sem þau Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari skipa. Dúóið fagnar sumrinu með íslenskum þjóðvísum, þulum, ljóðum og hljóðum tengd sumrinu.  Einnig munu þau flytja skemmtilega hljóðsögu með hljóðfærunum sínum. Þau leika á ýmis hefðbundin hljóðfæri s.s víólu og marimbu og einnig óhefðbundin svo sem hrossakjálka, íslenska steina og barnaleikföng. Skemmtilegir og áhugaverðir ókeypis tónleikar fyrir alla fjölskylduna.

 

Nánari upplýsingar á www.songhatid.is

 

Um listamennina: 

Dúó Stemma hefur leikið saman í rúmlega 18 ár og spilað fyrir fjölmörg börn á Íslandi og erlendis. Dúó Stemma hlaut viðurkenninguna "Vorvindar" frá IBBY samtökunum árið 2008 fyrir framlag þeirra til barnamenningar á Íslandi.

 

Herdís Anna Jónsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskóla Akureyrar 1983, Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og Hochschule fur Musik und Darstellende Kunst Stuttgart 1992. Hún er fastráðinn víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Steef van Oosterhout lauk einleikaraprófi frá Sweelinck Conservatorium Amsterdam 1987. Hann starfaði í Hollandi með ýmsum kammerhljómsveitum m.a. Nederlands blazersensemble og lék með sinfóníuhljómsveitum þ.á.m. Consertgebouwhljómsveitinni í Amsterdam.  Síðan 1991 hefur Steef verið fastráðinn sem leiðari í slagverksdeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands.  

 

Sönghátíð í Hafnarborg verður haldin 28. júní - 14. júlí 2019. Nafn hátíðarinnar í ár vísar í eitt vinsælasta lag ástsæla tónskáldsins Atla Heimis Sveinssonar, sem féll frá fyrir skömmu. Hátíðin heiðrar minningu Atla Heimis með lokatónleikum þar sem sex söngvarar flytja úrval sönglaga hans, en tónleikunum lýkur með samsöng flytjenda og áhorfenda. Á Sönghátíð í Hafnarborg verða í boði alls sjö tónleikar með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum og margvísleg námskeið fyrir börn og fullorðna - leika sem lærða. Listrænir stjórnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari. www.songhatid.is