Tix.is

  • 4. - 8. sept 2019
Um viðburðinn

Miðborgin lifnar við undir seiðandi jazztónum dagana 4.-8. september þegar Jazzhátíð Reykjavíkur fer fram. Hátíðin í ár er sú þrítugasta í röðinni og að því tilefni verður blásið til jazzveislu í nágrenni við Reykjavíkurtjörn. 

Jazzlíf landans blómstrar sem aldrei fyrr og á þessari uppskeruhátið íslenskra jazztónlistarmanna gefst færi á að hlýða á framvarðarsveitir í faginu ásamt nokkrum gríðarlega áhugaverðum samstarfsverkefnum íslenskra og erlendra flytjenda. Að venju er einnig boðið upp á erlend atriði sem vakið hafa athygli og hrifningu úti í hinum stóra heimi. Sem dæmi um athyglisverð og spennandi atriði á Jazzhátíð í ár má nefna ensk-skandinavíska tríóið Phronesis, tríó breska saxófónleikarans Tori Freestone og tvö fjölþjóðleg samstarfsverkefni. Annars vegar samstarf Jóels okkar Pálssonar, sænska bassaleikarans Torbjörn Zetterberg og portúgalska trompetleikarans Susana Santos Silva og hins vegar samstarf Scotts okkar McLemore og breska trompetleikarans Laura Jurd. 

Eins og undanfarin ár fer jazzskotin skrúðganga af stað frá Lucky Records við Hlemm kl. 17:00 á upphafsdegi Jazzhátíðar með tilheyrandi lúðraþyt og slagverksslætti. Gengið verður fylktu liði niður að tjörn og endað inni í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem setningarathöfn Jazzhátíðar fer fram kl. 17:30. Þar verður boðið upp á spennandi kokteil af tónlistaratriðum ásamt stuttum og skemmtilegum ræðum. Um kvöldið verður svo boðið upp á röð örtónleika í Listasafni Íslands.  

Eins og áður sagði verður hátíðin í ár haldin á stöðum í grennd við Reykjavíkurtjörn en þeir helstu eru Listasafn Íslands, Tjarnarbíó, Hard Rock Cafe, Ráðhús Reykjavíkur og Borgarbókasafnið Grófinni. 

Hátíðarpassinn gefur aðgang að öllum kvöldtónleikum sem eiga sér stað á helstu tónleikastöðum Jazzhátíðar og á eftirmiðdagstónleika sunnudaginn 8. september þar sem María Magnúsdóttir ásamt hljómsveit sinni heiðrar Anitu O’Day. Athugið að takmarkað magn hátíðarpassa er í boði. Einnig er mögulegt að kaupa kvöldpassa fyrir hvern dag og/eða staka miða á sunnudagstónleika Maríu. 

Hátíðarpassi kostar 18.900 kr. og kvöldpassar eru í boði fyrir 6.900 kr. Miði á sunnudagstónleika kostar 3.900 kr. 

Allar nánari upplýsingar um dagskrána má finna á reykjavikjazz.is