Tix.is

Um viðburðinn

Kammerhópurinn Camerarctica kemur fram á 15.15 tónleikum í Breiðholtskirkju, Mjóddinni laugardaginn 25. maí kl.15.15 og er yfirskrift tónleikana "Örlagafugl". Öll verkin á tónleikunum eiga það sameiginlegt að hafa einhverja skírskotun í þjóðlög eða þjóðararf. Á dagskránni er kammerverkið Örlagafugl fyrir klarinettu og strengi eftir Þorkel Sigurbjörnsson en sá fugl truflaði Egil Skallagrímsson þegar hann hóf að yrkja Höfuðlausn sína í Jórvík á Englandi forðum daga. Einnig verður flutt verkið "Quartettino" eftir ungverska tónskáldið Rezsö Kókai sem er innblásið af þjóðlegum stefjum, einleiksklarinettuverkið "From Galloway" sem byggir á skosku þjóðlagi eftir James MacMillan og að síðustu verður frumflutt hér á landi á nýtt verk fyrir klarinettu og strengi eftir ástralska tónskáldið Ian Munro "Songs from the bush“. Verkið hefur hlotið frábærar viðtökur í Ástralíu og víðar þar sem tónskáldið töfrar fram ástralskan hljóðheim litaðan bæði af tónlist og hljóðheimi frumbyggja, þjóðlögum og fleiru. Tónleikarnir taka um klukkutíma.



  Camerarctica samanstendur af hljóðfæraleikurunum Ármanni Helgasyni klarinettuleikara, Hildigunni Halldórsdóttur og Bryndísi Pálsdóttur fiðluleikurum, Guðrúnu Þórarinsdóttur víóluleikara og Sigurði Halldórssyni sellóleikara.


  Tónlistarhópurinn Camerarctica hefur starfað frá árinu 1993, um það leyti sem hljóðfæraleikararnir komu heim frá námi við tónlistarháskóla erlendis. Félagar hópsins hafa meðal annars leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kennt hljóðfæraleik við tónlistarskólana á höfuðborgarsvæðinu og komið víða fram sem einleikarar. Camerarctica hefur vakið sérstaka athygli og hlotið lofsamlega dóma fyrir flutning sinn á verkum Mozart á árlegum kertaljósatónleikum í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og á strengjakvartettum Shostakovitch og Bartók á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Reykjavík.  Hópurinn hefur m.a leikið á Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík, Norrænum músíkdögum, Kammermúsíkklúbbnum,15:15 Tónleikum og á Norrænum sumartónleikum í Norræna húsinu, Salisbury hátíðinni í Bretlandi og gefið út geisladisk með verkum eftir W. A. Mozart.


15:15 tónleikasyrpan

Árið 2002 var stofnað til nýrrar tónleikaraðar á Nýja sviði Borgarleikhússins. Nafnið var kennt við þann tíma dags sem tónleikarnir voru haldnir. Eftir fimm ára farsælt samstarf við Borgarleikhúsið fluttist 15:15 tónleikasyrpan í Norræna húsið þar sem hún var til húsa þar til síðastliðið vor. Nú hefur 15:15 tónleikasyrpan verið boðin velkomin í Breiðholtskirkju. Aðstandendur tónleikasyrpunnar hlakka til að sníða tónleika í nýtt húsnæði sem býður upp á fjölbreytta möguleika. 15:15 tónleikasyrpan er vettvangur grasrótar í tónlist þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og tilraunastarfsemi og tónlistarmenn geta flutt og kynnt þá tónlist sem þeim er hugleikin hverju sinni. Þeir hópar sem komið hafa fram undir merkjum 15:15 tónleikasyrpunnar eru m.a. tónlistarhóparnir Benda, Camerarctica, Caput, Hnúkaþeyr og Dísurnar. Einnig hafa komið fram fjöldi söngvara og hljóðfæraleikara og flutt allt frá forntónlist til nútímatónlistar víðsvegar að.