Tix.is

Um viðburðinn

Föstudagsröðin: Rakhmanínov og Gubaidulina I – Sinfóníuhljómsveit Íslands
Norðurljós
Sergej Rakhmanínov: Trio élégiaque nr. 1
Sofia Gubaidulina: Píanókvintett

Nicola Lolli, Sigurgeir Agnarsson og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanótríó

Sigrún Eðvaldsdóttir, Gregory Aronovich, Bryndís Halla Gylfadóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanókvintett

Á þrennum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í vetur verður teflt saman verkum tveggja rússneskra meistara. Sergej Rakhmanínov var eitt helsta tónskáld síðrómantíkur en Sofia Gubaidulina er eitt virtasta tónskáld samtímans.

Föstudagsröðin Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefst með kammertónlist fluttri af hljóðfæraleikurum úr hljómsveitinni. Fluttar verða tvær perlur þessa meistara sem báðar eru æskutónsmíðar en sýna glöggt hvílíkar gáfur þau höfðu til brunns að bera. Rakhmanínov samdi fyrra píanótríó sitt þegar hann var aðeins 19 ára gamall en í því heyrist margt sem minnir á síðari tónsmíðar hans. Tónlistin er angurvær og dulúðug en líka full af ástríðu.

Píanókvintett Gubaidulinu er sannkallað meistaraverk en hljómar nú á Íslandi í fyrsta sinn. Verkið samdi hún árið 1957 undir sterkum áhrifum frá Shostakovitsj og Prokofíev. Þetta er kraftmikil tónlist og sérlega áheyrileg enda telja margir að hér sé komin ein áhugaverðasta kammertónsmíð 20. aldar frá Rússlandi. Skömmu eftir að kvintettinn var frumfluttur hlaut Gubaidulina ákúrur frá prófdómurum við Tónlistarháskólann fyrir að hafa snúið af hinni „réttu braut“ sovésks rétttrúnaðar í tónlist sinni. Varla hafði hún stigið út úr kennslustofunni þegar Shostakovitsj vatt sér að henni á ganginum og hvíslaði: „Haltu þig á vitlausu brautinni!“

Tónleikar Föstudagsraðarinnar í Norðurljósum taka um klukkustund og eru fullkominn upptaktur að skemmtilegri helgi.