Tix.is

Um viðburðinn

Ofur-dragdrottningarnar Heklina og Peaches Christ eru væntanlegar til Reykjavíkur með stjörnusýninguna MOMMIE QUEEREST! 

Sýningin er hluti af dagskrá Reykjavík Pride og meðal gesta á sviði eru Páll Óskar, Gloria Hole og Gógó Starr. Sýningin er djörf og bráðfyndin skopstæling á bandarísku költmyndinni Mommie Dearest með Faye Dunaway í hlutverki Joan Crawford. Þó að kvikmyndin lýsi myrku og ofbeldisfullu sambandi Joan við dóttur sína Christinu Crawford, var það ómótstæðilega yfirdrifin túlkun Faye Dunaway á Joan sem sló óvænt í gegn og myndin varð í kjölfarið söguleg í grínmenningu samkynhneigðra. Í bland við sprenghlægilega illa skrifuð samtöl og stórundarlegt handrit er ljóst að frami Dunaway hefur aldrei jafnað sig eftir leik hennar í myndinni. Greyið Joan Crawford er betur þekkt fyrir þessa mynd en þær sem hún lék sjálf í sem ókrýnd drottning Hollywood. Á hverri Hrekkjavöku endurvekja hommar enn í dag hina skrímslalegu, vitstola Joan klædda í baðslopp með andlitið þakið kuldakremi, öskrandi „Engin herðatré!“


Í þessari dragsýningu reynir fölnaða stjarnan Peaches Christ að efla álit almennings á sér. Í örvætningarfullri tilraun til að fá meiri athygli ákveður hún að ættleiða glænýja drag-dóttur, Hek-tinu. Peaches lofar að gefa nýju drag-dóttur sinni allt það sem hún aldrei fékk en hin unga Hek-tina uppgötvar fljótt að drag-móðir hennar er í raun algjör taugahrúga sem beitir hana andlegu ofbeldi. Hektina byrjar á laun að skipuleggja atlögu gegn móður sinni. Aumingja húshjálpin Palli festist á milli þeirra tveggja og leitar hjálpar hjá bróður sínum Christopher (Gógó Starr) og blaðamanninum Gloriu Hole. Komið og verið vitni að þessari hryllilega fyndnu kvöldskemmtun um... barnamisnotkun! En endilega skiljið herðatrén eftir heima…