Tix.is

Um viðburðinn

Mahler og Debussy – Sinfóníuhljómsveit Íslands
Lili Boulanger: Dun matin de printemps
Gustav Mahler: Söngvar úr Des Knaben Wunderhorn
Benjamin Britten: Sea Interludes úr Peter Grimes
Claude Debussy: La mer

Hannu Lintu hljómsveitarstjóri

Michelle DeYoung einsöngvari

Tónleikakynning » 18:00

Glæsileg tónlist tengd hafinu og vorinu hljómar á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn finnska hljómsveitarstjórans Hannu Lintu. Hann er aðalstjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar í Helsinki og hefur áður stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands með stórkostlegum árangri. „Undir stjórn Hannu Lintu fékk Sinfóníuhljómsveit Íslands að láta öll blæ-, styrk- og litbrigði njóta sín; flutningurinn var allan tímann stórskemmtilegur og spennandi“ sagði tónleikarýnir Morgunblaðsins um flutning hans á sinfóníum Beethovens í Hörpu árið 2011.

Hin franska Lili Boulanger lést aðeins 24 ára gömul árið 1918 en hafði þá þegar samið glæsileg tónverk, meðal annars hina ljúfu vorstemningu sem hljómar í upphafi tónleikanna. Des Knaben Wunderhorn, eða Drengsins nægtahorn, er heiti á safni þýskra þjóðkvæða sem gefið var út árið 1805. Fjölmörg tónskáld sömdu lög við kvæðin en ekkert sótti þangað innblástur í sama mæli og Gustav Mahler, en söngvaflokkur hans er sannkallað meistaraverk. Tónlistin og textarnir spanna allt frá ástarsorg til stríðsátaka, eru ýmist kaldhæðin, bitur, glaðvær eða íhugul.

Hafið er í forgrunni á síðari hluta tónleikanna. Sjávarmyndir Brittens eru röð hljómsveitarþátta úr hinni mögnuðu óperu Peter Grimes, þar sem sjómaður tekst á við eigin breyskleika og óvild samfélags í enskum sjávarbæ. La mer er hið mikilfenglegasta af hljómsveitarverkum Debussys, eins konar sinfónía um hafið, vindinn og öldurnar. Í þessu verki fær hljómsveitin að sýna allar sínar bestu hliðar.

Bandaríska mezzósópransöngkonan Michelle DeYoung er einstaklega innblásinn túlkandi og sérhæfir sig meðal annars í tónlist Mahlers. Hún hefur sungið við Metropolitan-óperuna og Covent Garden og kemur reglulega fram með fremstu sinfóníuhljómsveitum heims, til dæmis Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam og Staatskapelle Berlin undir stjórn Daniels Barenboim. 

American mezzo-soprano Michelle DeYoung, whose specialities include the music of Mahler, is an unusually inspired interpreter who has appeared at the Metropolitan Opera and Covent Garden. A regular performer with leading orchestras worldwide, including the Concertgebouw in Amsterdam and the Staatskapelle Berlin under the baton of Daniel Barenboim.