Tix.is

Um viðburðinn

Vegna heimsfaraldursins og afleiðinga hans reynist óhjákvæmilegt að aflýsa fyrirhuguðum sýningum á Valkyrjunni eftir Wagner, uppfærslu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík sem fara átti fram í Hörpu 24. og 26. febrúar 2022.
Allir miðahafar fá frekari upplýsingar sendar í tölvupósti

Niflungahringur Richards Wagner er án nokkurs vafa ein metnaðarfyllsta ópera sem fyrirfinnst í tónlistarsögunni. Þessi magnaða ópera er eitt af helstu meistaraverkum tónlistar á 19. öld og Valkyrjureiðin fræga er flestum kunn. Nú hljómar Valkyrjan í fyrsta sinn í heild á Íslandi og þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2002 sem ópera Wagners er sýnd hér í fullri lengd.

Fjórar óperur mynda Niflungahringinn og við smíði sögunnar sótti Wagner ekki aðeins efni í hið þýska Niflungaljóð, heldur einnig Eddukvæði, Snorra-Eddu og Völsunga sögu sem hann átti í fórum sínum í þýskri þýðingu. Hann vann að verkinu í um aldarfjórðung og hér fékk gáfa hans bæði sem tónskáld og textahöfundur að njóta sín til fulls.

Efnisþráður Valkyrjunnar er að miklu leyti sóttur í Völsunga sögu. Fárviðri geisar og Siegmund leitar skjóls í húsi Sieglinde og manns hennar, Hundings. Þau Sieglinde fella hugi saman og valkyrjan Brynhildur, dóttir Óðins, óhlýðnast föður sínum með því að liðsinna Sigmundi þar sem hann heyr einvígi við Hunding. Óðinn refsar henni með því að svipta hana guðdómleikanum, breytir henni í mennska konu sem skal liggja sofandi á bjarginu umvafin vafurlogum og ekki vakna fyrr en mikil hetja fær sigrast á logunum og vakið hana með kossi.

Sópransöngkonan Iréne Theorin fer með hlutverk Brynhildar, en hún hefur meðal annars sungið hlutverkið við Staatsoper Berlin undir stjórn Daniels Barenboim. Önnur hlutverk syngja m.a. Jamie Barton, Christopher Ventris, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Kristinn Sigmundsson og Lilja Guðmundsdóttir. Hljómsveitinni stjórnar Eva Ollikainen, aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Leikstjórinn er Julia Burbach en hún er fastráðin við Covent Garden í Lundúnum. Vídeólistamaðurinn Tal Rosner hefur meðal annars unnið til BAFTA-verðlauna fyrir list sína, en hann hefur m.a. starfað við National Theatre í Lundúnum og Lincoln Center í New York.

Valkyrjan er samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar og Listahátíðar í Reykjavík í samvinnu við Opéra National de Bordeaux. Flutningur verksins tekur fimm klukkustundir og eru tvö hlé innifalin (45 og 30 mínútur).

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Eva Ollikainen

LEIKSTJÓRN
Julia Burbach og Tal Rosner

VÍDEÓHÖNNUN OG ÚTLIT
Tal Rosner

HLUTVERK
Iréne Theorin Brünnhilde
Christopher Ventris Siegmund
Jamie Barton Fricka
Claire Rutter Sieglinde
Ólafur Kjartan Sigurðarson Wotan
Kristinn Sigmundsson Hunding
Lilja Guðmundsdóttir Helmwige
Sigrún Pálmadóttir Gerhilde
Margrét Hrafnsdóttir Ortlinde
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir Waltraute
Agnes Thorsteins Siegrune
Guja Sandholt Roßweiße
Hildigunnur Einarsdóttir Grimgerde
Svanhildur Rósa Pálmadóttir Schwertleite