Tix.is

Um viðburðinn

Víkingur og Daníel – Sinfóníuhljómsveit Ísland
- Á leið til Þýskalands

Edvard Grieg: Pétur Gautur, valdir þættir
Daníel Bjarnason: Processions, píanókonsert
W.A. Mozart: Hornkonsert nr. 3
Jean Sibelius: Sinfónía nr. 5

Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri
Víkingur Heiðar Ólafsson einleikari
Radovan Vlatkovic einleikari

Tónleikakynning » 18:00

Það að var stórviðburður í íslensku tónlistarlífi þegar Víkingur Heiðar frumflutti nýjan píanókonsert Daníels Bjarnasonar, Processions, með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2009. Í kjölfarið hefur konsertinn hljómað víða um heim og hlotið frábæra dóma heimspressunnar. Víkingur er kominn í hóp fremstu einleikara á heimsvísu og undanfarin misseri hefur hann leikið með helstu hljómsveitum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Í nóvember heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis. Í Konzerthaus í Berlín verða haldnir tónleikar með Víkingi sem er nú staðarlistamaður tónleikahússins, en einnig verða haldnir tónleikar í München og Salzburg, þar sem króatíski hornsnillingurinn Radovan Vlatkovic leikur einnig einleik. Í aðdraganda ferðarinnar leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands efnisskrána í Hörpu. Þar hljóma sívinsælir þættir úr Pétri Gaut eftir Grieg, yndisfagur hornkonsert Mozarts og kröftug sinfónía Sibeliusar, auk píanókonsertsins Processions.

Daníel Bjarnason er hljómsveitarstjóri á tónleikunum og í ferðinni en hann hefur hlotið mikla athygli undanfarin ár bæði fyrir tónlist sína og hljómsveitarstjórn. Nýjasta verk sitt samdi Daníel fyrir Fílharmóníusveit Los Angeles í tilefni 100 ára afmælis hennar og var það frumflutt á hátíðartónleikum í Walt Disney Concert Hall í október 2019. Daníel var á árunum 2015–2018 staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gegnir nú stöðu aðalgestastjórnanda.

Víkingur Heiðar er fyrir löngu kominn í röð fremstu einleikara á heimsvísu og var valinn listamaður ársins 2019 á Gramophone-verðlaununum í október. Nýjasta plata Víkings, með verkum eftir Bach, hefur hlotið frábæra dóma, hlaut til dæmis BBC Music Magazine verðlaunin sem plata ársins auk þess sem hún var valin ein af útgáfum mánaðarins í hinu virta tímariti Gramophone og plata vikunnar í The Sunday Times ásamt því að hún var valinn plata ársins á hinum virtu þýsku verðlaunum OPUS KLASSIK í september 2019. Undanfarin misseri hefur hann leikið með fremstu hljómsveitum í Evrópu og Bandaríkjunum, meðal annars í Helsinki, Stokkhólmi og Los Angeles, auk þess að halda einleikstónleika í Lundúnum og í Lincoln Center í New York.

Strax seldist upp á tónleikana en nú hefur aukatónleikum verið bætt við 8. nóvember.